„Einstaklega gróf, ófyrirleitin og langvinn“

Maðurinn hlaut 5 ára dóm fyrir að ráðast að konunum …
Maðurinn hlaut 5 ára dóm fyrir að ráðast að konunum tveimur og nauðga annarri þeirra. mbl.is

Karlmaður hefur verið dæmdur í Héraðsdómi Reykjavíkur í fimm ára fangelsi fyrir stórfelldar árásir sama dag í ágúst í fyrra gegn tveimur konum sem hann átti í nánu sambandi við. Þá er hann jafnframt fundinn sekur um að hafa nauðgað fyrri konunni, en í dóminum segir að atlagan hafi verið „einstaklega gróf, ófyrirleitin og langvinn.“ Maðurinn er hins vegar sýknaður af tilraun til manndráps, en í báðum árásunum þrengdi hann að öndunarvegi kvennanna og í máli fyrri konunnar brotnaði málbein hennar.

Maðurinn hefur setið í varðhaldi frá 2. ágúst, en báðar árásirnar áttu sér stað daginn áður, eða 1. ágúst sem var um verslunarmannahelgina. Rétt er að vara við lýsingum sem koma fram í fréttinni.

Lýsti manninum sem stóru ástinni í lífi sínu

Fyrri árásin átti sér stað aðfaranótt 1. ágúst eftir að maðurinn og konan höfðu m.a. farið í sund saman, reykt krakk og stundað kynmök. Lýsti konan manninum sem stóru ástinni í lífi sínu, en þau höfðu verið í sambandi með hléum í 13 ár og búið saman í tvö ár. Þau slitu sambúðinni um ári fyrir árásina, en höfðu síðan nokkrum sinnum verið í sambandi án þess að búa saman. Þennan dag sagði maðurinn henni að hann væri að hitta aðra konu, en í seinni hluta málsins var hann fundinn sekur um að hafa ráðist líka á hana síðar þennan sama dag.

Þrátt fyrir þetta ákváðu þau sem fyrr segir að stunda kynmök og sögðu þau bæði að það hefði verið með vilja beggja, en konan tók hins vegar fram að hún hefði tekið þátt í þeim þar sem maðurinn sagði að hún þyrfti m.a. að veita sér munnmök til að fá „smók“ af krakki. Hann hafi svo á einhverjum tímapunkti ákveðið að hann vildi eiga við hana endaþarmsmök, en hún ekki viljað það og hann því ákveðið að nauðga henni og barið hana.

Flúði fáklædd og leitaði aðstoðar ókunnugra

Í dóminum er því lýst að konan hafi eftir nokkurn tíma, sem dómarinn telur hafa verið um tvær klukkustundir, tekist að komast frá manninum. Flúði hún þá fáklædd af vettvangi og leitaði aðstoðar í næsta húsnæði sem hún fann og hringdi þar öllum bjöllum um miðja nótt. Var henni hleypt inn í eina íbúðina hjá ókunnugu fólki og hringt á lögreglu, en konan var með mikla líkamlega áverka og í miklu uppnámi.

Neitaði flestu og sagði konuna sjálfa hafa sest í glerbrot

Maðurinn viðurkenndi að hafa slegið konuna tvisvar í höfuðið og rassskellt hana, auk þess að hafa ítrekað reynt að stunda við hana endaþarmsmök, en hætt þegar hún sagðist ekki vilja það. Hann neitaði hins vegar að hafa dregið hana úr bifreið, hrint henni og þvingað hana til að liggja í glerbrotum meðan þau höfðu samfarir. Sagði hann konuna sjálfa hafa sest á glerbrot, að hún hafi samþykkt að hann tæki hana kverkartaki og að hann hafi rifið í hár hennar með hennar samþykki. Þá sagðist hann ekki hafa hótað henni lífláti og líkamsmeiðingum.

Dómurinn taldi hins vegar framburð konunnar og framsetningu í ákæru bera saman að mestu við áverka sem staðfestir væru og með gögnum frá neyðarmóttöku, bráðamóttöku og úr matsgerð réttarlæknis. Þannig hafi hún fengið högg á höfuðið, þrengt hafi verið að hálsi hennar og einhverju þrýst í endaþarm hennar, auk þess sem merki voru um að hún hefði setið á glerbrotum og verið í aðstæðum sem ollu henni áverkum þegar höfð voru við hana kynmök.

Hafið yfir skynsamlegan vafa að hann braut á konunni

Segir í dóminum að manninum hafi átt að vera ljóst að hann væri að valda konunni líkamstjóni auk þess að hafa borið sjálfur um að hafa oftar en einu sinni reynt að eiga við hana endaþarmsmök þrátt fyrir að vita vegna fyrri samskipta þeirra að hún vildi í hvert skipti að hann stoppaði.

Er í dóminum meðal annars vísað til þess að ummerki í bifreiðinni, meðal annars fatnaður konunnar sem bar merki um að hafa verið rifinn af henni og blóð, ýti stoðum undir framburð hennar. Þá hafi maðurinn ekki getað gefið nema takmarkaðar skýringar á ástandi konunnar og ljóst að hann tók hana hálstaki. Þá segir í dóminum að ekkert gefi til kynna að konan hafi veitt samþykki fyrir þessum gjörðum og hafið yfir skynsamlegan vafa að hann hafi brotið á henni eins og lýst er í ákæru.

Ekki tilraun til manndráps

Spurning er hins vegar hvort hálstakið, sem braut m.a. málbein konunnar, hafi verið tilraun til manndráps eða stórfelld líkamsárás. Segir í dóminum að maðurinn hafi áður hlotið þjálfun í bardagaíþróttinni jiu-jitsu sem hann taldi auðvelda sér að skilja hversu langt hann gæti gengið. Dómurinn taldi einnig ljóst að áframhaldandi tak á hálsi konunnar hefði getað verið lífshættulegt. Hins vegar er það niðurstaða dómsins að það sé ósannað gegn neitun mannsins að fyrir honum hafi vakað að deyða konuna. Er hann því sýknaður af tilraun til manndráps, en fundinn sekur um stórfellda líkamsárás.

Réðst einnig að síðari konunni

Í seinni hluta málsins kom tilkynning til lögreglu eftir hádegi 1. ágúst. Hafði maðurinn þá ráðist að konunni sem hann hafði áður lýst í fyrri hlutanum að hann væri byrjaður að hitta. Sagði hann í skýrslutöku hjá lögreglu að hann hefði hitt konuna eftir mikla neyslu og verið í hálfgerðu uppnámi og geðrofi og talið konuna hafa sofið hjá öllum sem voru á staðnum. Síðan hafi hann reykt og sprautað sig og dottið út í einhvern tíma. Hann hafi svo ætlað að fara og hún viljað með honum en hann ekki samþykkt það. Það hafi leitt af sér rifrildi sem hafi endað með að hann kýldi hana ítrekað hnefahöggum í andlitið og sparkaði einu sinni í andlit hennar. Hlaut konan meðal annars brot í gólfi augntóftar og ýmsa aðra áverka um allan líkamann. Sagði konan manninn einnig hafa tekið sig hálstaki og að mögulega hafi hún misst við það meðvitund.

Maðurinn sagði þau hafa verið í MMA-glímu og verið hálfpartinn að berja hvort annað. Neitaði hann því að hafa kýlt konuna. Hann hafi þótt átt í útistöðum við hana og m.a. reynt að koma henni út úr bifreið eftir að hún kastaði fíkniefnum sem hann átti.

Eru í nánu sambandi í dag

Í dóminum kemur fram að framburður beggja hafi tekið nokkrum breytingum frá því í fyrstu skýrslutökum hjá lögreglu. Er vísað til þess að þau séu nú í nánu sambandi og metur dómurinn vegna þess að framburður þeirra sé ótrúverðugur fyrir utan það þegar hann fær stoð í öðrum gögnum.

Taldi dómurinn sannað að konan hafi hlotið áverkana í samskiptum sínum við manninn með ítrekuðum hnefahöggum í andlit og sparki í andlit. Hins vegar sé ósannað að hann hafi tekið konuna hálstaki og þrengt að öndunarvegi hennar. Spark í höfuð hefur í dómaframkvæmd flokkast sem sérstaklega hættuleg líkamsárás og er miðað við það við refsinguna.

Um 12 milljónir í bætur og málskostnað

Manninum er sem fyrr segir gerð fangelsisrefsing upp á fimm ár, en frá því dregst gæsluvarðhald frá 2. ágúst. Þá þarf hann að greiða fyrri konunni 3,5 milljónir og þeirri síðari, sem hann er nú í sambandi við, 700 þúsund krónur. Auk þess þarf hann að greiða tvo þriðju hluta af málsvarnarlaunum sem samtals nema 10 milljónum. Þá þarf hann einnig að greiða sakarkostnað upp á 1,2 milljónir.

Dómurinn féll í síðasta mánuði en var fyrst birtur í síðustu viku.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert