Appelsínugul viðvörun í gildi

Kort/Veðurstofa Íslands

Appelsínugul viðvörun er á öllu landinu nema á Vestfjörðum og tók hún gildi á höfuðborgarsvæðinu, Suðurlandi, Breiðafirði og í Faxaflóa klukkan 6 í morgun.

Á höfuðborgarsvæðinu er spáð sunnan 20-28 metrum á sekúndu og mjög snörpum vindhviðum. Hvassast verður í efri byggðum og við ströndina. Mikil úrkoma verður, slydda eða snjókoma. Nauðsynlegt er að tryggja muni utandyra.

Veðurspáin á landinu er á þann veg að það gengur í sunnan 20-28 m/s í skamman tíma með slyddu eða snjókomu. Hætt er við eldingaveðri. Snýst síðan í suðvestan 15-23 m/s með éljum, fyrst vestan til en eftir hádegi austanlands. Dregur úr vindi seinnipartinn.

Hiti verður víða í kringum frostmark, en allt að 5 stigum austast. Vægt frost verður í kvöld.

Suðvestan 8-15 og él verða á morgun, en bjart norðaustan til. Frost verður á bilinu 2 til 9 stig. Norðvestan 10-20 m/s verða annað kvöld með éljum norðan- og vestanlands, hvassast við suðvesturströndina.

Veðurvefur mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert