Þungbær og sorgleg tilhugsun að seilast lengra í vasa stúdenta

Dagbjörg Hákonardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar.
Dagbjörg Hákonardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Hákon

Dagbjört Hákonardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, segir að þrátt fyrir vanfjármögnun Háskóla Íslands sé það þungbær og umfram allt sorgleg tilhugsun að seilast enn lengra í vasa stúdenta sem sé ætlað að halda uppi rekstri opinberrar háskólamenntunar.

„Hvernig geta slíkar ráðstafanir verið réttlætanlegar á þessum verðbólgutímum? Er til of mikils mælst að stjórnvöld sinni lögbundnum skyldum sínum og fjármagni opinbera háskólamenntun með sóma í stað þess að velta byrðinni yfir á stúdenta? Hvernig eigum við að standa jafnfætis þjóðum sem við viljum bera okkur saman við í menntamálum ef Háskóli Íslands stendur árlega frammi fyrir niðurskurðarhnífnum?

Þetta er ekki vöxtur. Þetta er ekki velsæld. Þetta er samdráttur. Þetta er skammsýni. Þetta er fátækleg menntastefna,“ sagði Dagbjört í umræðum um störf þingsins á Alþingi í dag. 

Óboðlegur niðurskurður

Hún benti á að HÍ vanti að öðru óbreyttu milljarð til að ná endum saman „vegna óboðlegs niðurskurðar upp á 2,2% og erfiðs rekstrarumhverfis húsnæðismála samkvæmt fjárlögum ársins 2023.“

Hún benti á að það sé stefnt að miklum takmörkunum á nýráðningum innan skólans og dregið verði úr kennslu á fræðasviðum, auk þess sem fyrirséð sé að skrásetningargjöld hækki enn frekar, úr 75.000 kr. í 95.000 kr.

„Hvernig eiga þessar fjárveitingar til háskólans að endurspegla sýn ríkisstjórnarinnar sem fram kemur í stjórnarsáttmálanum, þ.e. að stefna að sambærilegri fjármögnun háskóla á Íslandi og þekkist á hinum Norðurlöndunum? Er það tilviljun að háskólayfirvöld óski eftir hækkun á skrásetningargjaldinu í kjölfar annarrar umræðu fjárlaga og þeim niðurskurði til Háskóla Íslands sem þar er boðaður? Hér er augljóst að byrði af fjármögnun opinberrar háskólamenntunar er velt beint yfir á stúdenta vegna þess að stjórnvöld kjósa að halda ekki uppi grunnstarfsemi háskólanna með nægilegri fjárveitingu á fjárlögum,“ sagði Dagbjört.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert