Ætti að veita Rússum hæli?

Þórdís Kolbrún sagði áherlsu stjórnvalda vera að veita Úkraínumönnum hæli, …
Þórdís Kolbrún sagði áherlsu stjórnvalda vera að veita Úkraínumönnum hæli, enda séu þeir að flýja stríð. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Ætti að veita Rússum sem flýja Rússland vegna stjórnarhátta Valdimírs Pútíns Rússlandsforseta hæli hér á landi?“

Þessi spurning var meðal þeirra sem borin var upp í umræðuþættinum World Questions sem breska ríkisútvarpið (BBC) tók upp í Tjarnabíói í gærkvöldi. Þátturinn er hluti af þáttaröð BBC um álitamál í hinum ýmsu löndum.

Gestir þáttarins voru Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir utanríkisráðherra, Sigríður Mogensen sviðsstjóri iðnaðar– og hugverkasviðs hjá Samtökum iðnaðarins, Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og Benedikt Erlingsson leikari. Jonny Dymond, konunglegur fréttaritari BBC, stýrði umræðum.  

Jonny Dymond stýrði umræðum.
Jonny Dymond stýrði umræðum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Sjötíu manna áhorfendahópur fylgdist með pallborðinu. Áður en áhorfendur komu í salinn fengu þeir blað og penna og voru beðnir um að skrifa spurningar til þeirra sem sátu fyrir svörum. 

Að lokum voru sjö spurningar valdar. Vörðuðu þær hvalveiðar, útlendingamál, húsnæðismarkaðinn, ferðaiðnaðinn, íslenska menningu og huldufólk. 

Hafa hvalveiðar slæm áhrif á ásýnd Íslands?

Hvalveiðar eru umdeildar og telja sumir veiðarnar hafa slæm áhrif á ásýnd Íslands. Ein spurninganna sem borin var upp snéri einmitt að áhrifum hvalveiða á ásýnd Íslands.

Þórdís Kolbrún sagði hvalveiðar ekki hafa gífurleg áhrif á íslenska ferðaiðnaðinn. Þegar hún gegndi embætti ferðamálaráðherra fékk hún þó oft tölvupósta og skilaboð á Twitter frá fólki sem hætti við heimsókn sína til Íslands vegna veiðanna.  

Benedikt sagðist ekki vera hlynntur hvalveiðum og sagði þær eingöngu enn vera stundaðar hér á landi vegna spillingar stjórnvalda. 

Spurningar voru fengnar úr sal.
Spurningar voru fengnar úr sal. mbl.is/Kristinn Magnússon

Skiptar skoðanir á hæli fyrir Rússa

Tvær spurningar vörðuðu útlendingamál. Annars vegar var spurt hvort auðvelda ætti fólki sem hingað vill flytja að öðlast ríkisborgararétt og hins vegar hvort veita ætti Rússum sem flýja Rússland vegna stjórnarhátta Pútíns Rússlandsforseta hæli.

Benedikt sagði sjálfsagt að veita Rússum hæli en ekki voru allir á pallborðinu sömu skoðunar. Hægt verður að hlusta á þáttinn á heimasíðu BBC á laugardaginn.

Gestir þáttarins voru Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir utanríkisráðherra , Sigríður …
Gestir þáttarins voru Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir utanríkisráðherra , Sigríður Mogensen sviðsstjóri iðnaðar– og hugverkasviðs hjá Samtökum iðnaðarins, Dagur B. Eggertsson og Benedikt Erlingsson leikari. Kristinn Magnússon
mbl.is