„Held að fæstir myndu kalla þetta sjálfsmörk“

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Við þurfum í öllu falli að muna að verðbólgan kemur ekki með vindinum, og við vinnum ekki bug á vandanum með því að hækka einfaldlega launin um sífellt hærri krónutölu.“

Þetta segir Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra um hækkun á stýrivöxtum Seðlabanka Íslands, í svari við skriflegri fyrirspurn mbl.is.

Hann tekur þá ekki undir gagnrýni Ásgeirs Jónssonar seðlabankastjóra á stjórnvöld en hann sagði fyrr í dag að vinnumarkaðurinn og hið opinbera hefðu skorað sjálfsmark í baráttunni gegn verðbólgunni.

Eins og greint hefur verið frá hækkaði seðlabankinn stýrivexti sína um 0,5 prósentustig í dag og standa þeir nú í 6,5 prósentum. Þetta er gert til að stemma stigu við verðbólgu sem hefur farið síhækkandi en í janúar mældist hún 9,9 prósent.

Viðurkennir ekki sjálfsmark

Spurður út í gagnrýni Ásgeirs Jónssonar seðlabankastjóra á stjórnvöld um að hafa ekki dregið úr útgjöldum meira en raun ber vitni til að draga úr verðbólgu segir Bjarni að stjórnvöld hafi farið í ýmsar aðgerðir til að sporna gegn þenslu.

„Það má nefna almenna aðhaldskröfu, frestun á útgjaldasvigrúmi, varanlega lækkun ferðakostnaðar hjá ríkinu, lækkun framlaga til stjórnmálasamtaka,“ nefnir Bjarni sem dæmi.

Hann viðurkennir þó að útgjöld hafi aukist nokkuð á milli umræðna í þinginu frá kynningu fjárlagafrumvarpsins á síðasta ári. 

„Það fóru t.d. ríflega fimmtán milljarðar aukalega í heilbrigðismálin, á þriðja milljarð aukalega í löggæslumál og á annan milljarð í að stórhækka frítekjumark öryrkja. Ég held að fæstir myndu kalla þetta sjálfsmörk,“ segir Bjarni í svarinu.

Vaxtahækkun komi ekki á óvart

Bjarni segir að vaxtahækkunin komi ekki á óvart og bætir við að verðbólgan hafi verið þrálátari en flestir hefðu kosið.

„Í mínum huga felst stærsta hagsmunamál íslensks almennings í stöðugleika og hóflegri verðbólgu. Undir það held ég að flestir geti tekið, enda hlýtur það að vera meginmarkmið aðila vinnumarkaðarins að semja hér um bætt lífskjör og kaupmátt til lengri tíma,“ segir Bjarni spurður um viðbrögð við vaxtahækkun.

Bjarni tekur fram að þær aðstæður sem blasi við núna geri það ljóst að ríkisstjórnin og Alþingi þurfi að sýna ábyrgð í komandi fjármálaáætlun. Hann biðlar til aðila vinnumarkaðarins og samfélagsins í heild að gera slíkt hið sama.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert