Skella skuldinni á ríkisstjórn og Seðlabanka

ASÍ kennir annars vegar Seðlabankanum um vegna „heimatilbúinnar fasteignabólu“ og …
ASÍ kennir annars vegar Seðlabankanum um vegna „heimatilbúinnar fasteignabólu“ og hins vegar ríkisstjórninni vegna hækkana á ýmsum sköttum og gjöldum. Samsett mynd

Miðstjórn Alþýðusambands Íslands gagnrýnir stýrivaxtahækkun Seðlabankans sem kynnt var í morgun og kennir annars vegar Seðlabankanum um vegna „heimatilbúinnar fasteignabólu“ og hins vegar ríkisstjórninni vegna hækkana á ýmsum sköttum og gjöldum.

Seðlabankinn hækkaði stýrivexti sína um 0,5 prósentustig og standa þeir nú í 6,5%.

Í ályktun miðstjórnarinnar segir að hækkun verðbólgu í janúar, þegar hún mældist 9,9%, megi „fyrst og fremst rekja til ákvarðana ríkisstjórnarinnar.“ Hafnar miðstjórnin jafnframt að skýringa fyrir verðbólgunni sé að finna í kjarasamningum á almennum vinnumarkaði. „Aðilar vinnumarkaðarins voru sammála um að samningarnir myndu ekki ýta undir verðbólgu. Seðlabankinn verður að líta sér nær, að stórum hluta má rekja verðbólguna til heimatilbúinnar fasteignabólu og alþjóðlegra verðhækkana,“ segir í ályktuninni.

Segir miðstjórnin að ríkisstjórnin hafi blásið í glæður verðbólgu með hækkunum á ýmsum sköttum og gjöldum og að nú blasi afleiðingar „þeirra fráleitu ákvörðunar við almenningi.“ Þannig hafi vextir hækkað, húsnæðislán og húsaleiga verði þyngri í vöfum og kjörin verri.

„Allt eru þetta mannanna verk og líkt og jafnan koma slíkar aðgerðir verst niður á þeim sem búa við erfiðustu afkomuna. Aðgerðarleysi ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur gengur þvert á viðtekin viðbrögð í nágrannalöndum þar sem ráðamenn beita tækjum ríkisvaldsins til að lina áhrif afkomukreppunnar og vinna skipulega að því að hemja verðbólgu,“ segir að lokum í ályktuninni.

mbl.is