„Við erum reiðubúin að halda áfram“

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri.
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri segist telja að hámarki verðbólgunnar sé náð. Hins vegar gæti komið til frekara vaxtahækkana, en hann segir mjög mikilvægt að ná miklum árangri í baráttunni við verðbólguna fyrir næstu kjarasamningslotu sem hefst næsta haust.

Telur í þriðja sinn að hámarki sé náð

„Við álítum það svo að verðbólgan hafi náð hámarki og sé á leið niður,“ segir Ásgeir í samtali við mbl.is eftir kynningarfund peningastefnunefndar í morgun. Þetta er þó ekki í fyrsta skipti sem Ásgeir hefur verið bjartsýnn um hvernig gangi í þeirri glímu, en á síðustu tveimur fundum hefur hann horft til þess að hámarkinu sé náð varðandi verðbólguna. Þannig sagði hann í október að mögulega væri komið að vatnaskilum og í desember sagði Ásgeir að hækkun vaxta, sem þá fóru upp í 6% ætti að vera nóg til að vinna á verðbólgunni.

En hvað hefur breyst síðan þá og hvað er ekki að ganga eftir? „Það sem er að breytast er að við erum að sjá miklu meiri eftirspurn. Það voru ákveðnar vísbendingar í haust um að við værum að ná stjórn á stöðunni en það hefur ekki gerst,“ segir Ásgeir og bætir við að þessi aukna neysla hafi valdið minni sparnaði, sérstaklega hjá einstaklingum. Þá segir hann kjarasamninga hafa verið umfram efni. „ Það eru kjarasamningar sem eru tiltölulega háir og framhlaðnir þannig að það kom út mikill peningur núna. Þá er minna aðhald í ríkisfjármálum, svo hefur gengið veikst og það er meiri hagvöxtur.“ Bendir Ásgeir á að 7% hagvöxtur sem mældist í fyrra sé mjög mikið. „Þetta er meiri og meiri þensla og verðbólgan er ekki hjaðna nógu hratt og við þurfum því að hjálpa henni,“ segir Ásgeir.

Hækkunin núna er um 0,5 prósentustig og eru stýrivextir Seðlabankans því 6,5% núna. „Svo þurfum við að sjá hvað gerist. Við erum reiðubúin að halda áfram,“ segir Ásgeir.

Setur sér tímaramma í baráttu við verðbólgu

Það vakti athygli á síðustu fundum og í dag að Ásgeir og varaseðlabankastjóri héldu sig við fótboltalíkingar. Þannig var talað um að gefa upp boltann fyrir vinnumarkaðinn og ríkið og að Seðlabankinn væri tilbúinn að „spila solo“ ef þess þyrfti og vinnumarkaðurinn og ríkið myndu ekki spila með í þeirri vegferð að ná verðbólgu niður.

Á fundinum í morgun kom meðal annars fram gagnrýni peningastefnunefndar um að mótaðilar þeirra hefðu „spilað sóló“, eða jafnvel skorað í eigið mark. Spurður hvort þetta þýði að Seðlabankinn ætli einnig að „spila sóló“ segir Ásgeir að það geti að einhverju leyti þýtt það. Hins vegar geti bankinn ekki tryggt verðstöðugleika nema í einhverri samvinnu við vinnumarkaðinn. „Þess vegna teljum við mjög mikilvægt að við sýnum árangur á þessu ári að ná verðbólgu niður tiltölulega hratt. Þannig að þegar aðilar vinnumarkaðarins setjist niður til að semja um vonandi langtímasamninginn liggi vonandi fyrir með föstum hætti að við höfum náð árangri,“ segir Ásgeir.

Spurður hvort þetta þýði að hann sé að setja fram það markmið að verulegur árangur náist í baráttunni við verðbólgu fyrir haustið svarar Ásgeir því játandi. „Annars verður það ávísun á fleiri vandræði á vinnumarkaði. Við sjáum hvaða áhrif þessi háa verðbólga hefur á vinnumarkaðinn núna, verkföll og vesen.“

En hvað þýðir það þá ef þetta markmið næst ekki, er það áfall yfir peningastefnunefndinni? Ásgeir segir að það sé í raun áfall fyrir alla þessa þrjá aðila sem deila ábyrgðinni, ríkið, Seðlabankann og vinnumarkaðinn. „En það sem skiptir máli er að enginn þessara aðila er í einangrun frá þjóðinni og að lokum er það íslenska þjóðin sem þarf að bregðast við,“ segir Ásgeir.

Hvati til eyðslu enn til staðar

Sem fyrr segir eru stýrivextir Seðlabankans nú 6,5% en verðbólga 9,9%. Það þýðir að raunvextir bankans eru enn neikvæðir sem ætti samkvæmt fræðunum að þýða að bankinn sé að örva hagkerfið. Spurður hvort það sé þá ekki eðlilegt í núverandi ástandi að hækka vextina enn frekar ef hugmyndin sé að slá á þenslu segir Ásgeir það eðlilegt ef þannig sé horft á málið. „Það má alveg spyrja sig hvort það sé hvati fyrir fólk að spara þegar raunvextir eru neikvæðir.

Er þá hvati fyrir fólk til að eyða áfram? „Já algjörlega. Við erum enn að örva kerfið vegna neikvæðra raunvaxta. Annað hvort kemur verðbólgan niður eða við verðum að hækka vexti meira. Við getum ekki haft þetta ástand áfram,“ segir hann og vísar til þess að á fasteignamarkaði sé staðan enn þannig að þeir sem séu með lán á breytilegum vöxtum séu að fá neikvæða raunvexti, jafnvel þótt greiðslubirgði hafi hækkað umtalsvert.

Næsti fundur peningastefnunefndar er í mars. Spurður hvort að eitthvað þurfi að birta til í næstu verðbólgutölum svo að Seðlabankinn taki ekki ákvörðun um að hækka vexti enn frekar segir Ásgeir að nefndin þurfi að sjá til hvað gerist næsta mánuðinn og hvernig viðbrögðin verði við vaxtahækkuninni áður en eitthvað sé rætt um næstu skref.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK