„Verulegt áhyggjuefni fyrir okkur öll“

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Auðvitað er ákvörðunin ákveðin vonbrigði en það má segja það líka að þrálátari verðbólga en vonir stóðu til eru einnig vonbrigði og verulegt áhyggjuefni fyrir okkur öll,“ segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.

Pen­inga­stefnu­nefnd Seðlabanka Íslands ákvað að hækka stýrivexti um 0,5 pró­sentu­stig í dag.

„Ákvörðun seðlabankans er ákvörðun bankans enda er hann fullkomlega sjálfstæður í sínum ákvörðunum,“ segir Katrín um tíðindin í samtali við mbl.is.

Ásgeir Jóns­son seðlabanka­stjóri sagði á kynn­ing­ar­fundi eft­ir fund pen­inga­stefnu­nefnd­ar að vinnu­markaður­inn og hið op­in­bera hefðu skorað sjálfs­mark.

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri.
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hófstillt hækkun

„Ég vil segja það út af þessum rökstuðningi þar sem meðal annars er rætt um ríkisútgjöld, þá vil ég minna á að það sem mest hefur verið gagnrýnt í síðustu fjárlögum, hækkun krónutölugjalda, er í raun og veru aðhaldsaðgerð í sjálfu sér og verðbólguáhrif af henni voru algjörlega fyrirséð.

Þetta var mjög hófstillt hækkun, sem kemur í veg fyrir að þessi gjöld rýrni meira að raungildi en orðið er. Þannig að það er ekkert þar sem kemur á óvart.

Ég vil líka segja að þau auknu útgjöld sem ráðist var í voru fyrst og fremst útgjöld sem í raun og veru var ekki hægt að komast hjá, en þá er ég fyrst og fremst að vitna í framlögin til heilbrigðismála.“

Stjórnvöld hafa varið tekjulægstu hópana

Katrín segir stjórnvöld hafa varið tekjulægstu hópana fyrir áhrifum verðbólgunnar með margvíslegum hætti.

„Við höfum auðvitað lækkað tekjuskatt á tekjulægstu hópana og áhrifin þess eru enn að koma fram. Þá var gripið til sértækra aðgerða.

Við hækkuðum húsnæðisstuðning og greiðslur almannatrygginga og við studdum betur við barnafjölskyldur með eflingu barnabótakerfisins þannig að það nái til mun fleiri fjölskyldna en áður.“

Spenna í hagkerfinu og verðbólga á breiðum grunni

Þá segir forsætisráðherra að ekki skuli gera lítið úr því sem við stöndum frammi fyrir, sem er verðbólga ekki bara á Íslandi heldur í Evrópu allri, sem spili saman við mjög mikinn hagvöxt á Íslandi.

„Það er auðvitað hluti af stöðunni að hér er bæði mikil spenna í hagkerfinu og verðbólga á breiðum grunni.“

Aðgerðir seðlabankans á húsnæðismarkaði sem tilkomnar eru með nýjum heimildum í lögum til bankans segir Katrín að hafi borið árangur.

Þá segir hún stjórnvöld hafa gefið út yfirlýsingu um verðlagseftirlit í tengslum við kjarasamninga. Hún segir að það eigi ekki að vanmeta og að sú vinna sé á lokametrunum og muni skipta verulegu máli.

„Við höfum unnið að þessum málum á breiðum grunni og það skiptir miklu máli,“ segir Katrín.

Skoða hugmyndir um leigubremsu

Stjórnvöld hafi hækkað stuðning við leigutaka og að innviðaráðherra hafi boðað að hugmyndir um leigubremsu verði skoðaðar í hóp þar sem meðal annars aðilar vinnumarkaðarins verði kallaðir til.

„Við erum sammála um það að framganga félaga sem hafa lækkað leigu langt umfram vísitölu er algjörlega óásættanleg.“

Hvað finnst þér um rökstuðning seðlabankans er varðar dýra kjarasamninga. Er ekki um hættulegt innlegg að ræða inn í umræðu um kjaramál dagsins í dag?

„Ég tel að aðilar hafi náð saman um farsæla lausn þegar meirihluti almenna markaðarins skrifaði undir samning undir lok síðasta árs. Það er ekkert launungarmál að við höfum greitt há laun á Íslandi. Það er staðreynd ef við berum okkur saman við aðrar þjóðir.

Hér er líka tiltölulega mikill tekjujöfnuður vegna þeirra áherslna verkalýðshreyfingarinnar, sem hafa orðið ofan á, sem hefur verið að hækka lægstu launin meira hlutfallslega, það er áhersla sem ég get tekið undir.

Ég held að mestu skipti í þessum efnum að þessir þrír þættir vinni saman; peningastefna, ríkisfjármál og vinnumarkaður. Að mínu viti voru síðustu samningar skynsamlegir á þeim tímapunkti þó til skamms tíma séu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert