Gætu orðið hamfarir fyrir ferðaþjónustuna

Birgir Jónsson, forstjóri Play, er þess fullviss að samningar náist …
Birgir Jónsson, forstjóri Play, er þess fullviss að samningar náist um undanþágu fyrir Ísland. Ellegar færist ferðaþjónusta á landinu tíu til fimmtán ár aftur í tímann í einu vetfangi. Morgunblaðið/Eggert

„Þetta er auðvitað dálítið óljóst mál enn sem komið er en flugfélögin hafa verið í samstarfshópi með yfirvöldum og utanríkisþjónustan er að tækla málið mjög vel að því er ég held, fólk áttar sig alveg á því hvað þetta er stórt mál.“

Þetta segir Birgir Jónsson, forstjóri flugfélagsins Play, inntur eftir afleiðingum þess fyrir íslensk flugfélög verði kerfi Evrópusambandsins fyrir viðskipti með heimildir til losunar gróðurhúsalofttegunda tekið upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið án undanþága fyrir Ísland, en Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, ræðir sama mál við Morgunblaðið í dag.

„Þetta gætu orðið hamfarir fyrir ferðaþjónustuna,“ segir Birgir og tekur fram að þarna sé ekki á ferð hagsmunamál flugfélaganna einna, „þetta snertir allt þjóðarbúið. Eina ástæðan fyrir því að flugsamgöngur hafa dafnað svona vel á landinu, og ferðaþjónustan öll, er þetta tengi[flugs]módel og verði það fyrir einhverju hnjaski er það miklu stærra mál en svo að þetta snúist um einhvern aukinn kostnað fyrir flugfélögin, það er algjört hliðarmál,“ heldur forstjórinn áfram.

Hverja telur hann útkomuna geta orðið í versta falli?

„Hún væri náttúrulega sú að skattlagningin yrði með þeim hætti að ómögulegt yrði að bjóða samkeppnishæft verð á flugi yfir Atlantshafið með stoppi á Íslandi,“ svarar Birgir, afleiðingar þess fyrir komur ferðamanna til Íslands yrðu að hans mati að ferðaþjónustan hyrfi tíu til fimmtán ár aftur í tímann í einu vetfangi.

Ekki að reyna að hlaupast undan merkjum

„Allir sem koma að þessu máli, utanríkisþjónusta, ríkisstjórn og fleiri, átta sig á því hvað hér er undir og það er verið að vinna þetta mjög vel og senda rétt skilaboð inn í Evrópusamstarfið,“ segir Birgir.

Kveðst hann bjartsýnn á að Íslandi verði veitt undanþága, þar séu gríðarlegir og augljósir þjóðarhagsmunir undir og staða landsins óneitanlega sérstök í samanburði við evrópska meginlandið.

Forstjórar Play og Icelandair ræða málin við Morgunblaðið og mbl.is …
Forstjórar Play og Icelandair ræða málin við Morgunblaðið og mbl.is og eru sammála um að afleiðingar fyrir tengiflug um Ísland gætu orðið hinar alvarlegustu. Samsett mynd

„En hér má heldur alls ekki líta svo á að íslensk stjórnvöld séu með einhverjum hætti að reyna að koma sér undan ábyrgð í loftslagsmálum og ætli sér einhvern umhverfissóðaskap. Þetta er svo vanþróað enn sem komið er, þessir útblásturskvótar og allt sem hefur með þessi losunarmál að gera. Við og öll önnur flugfélög erum að borga gríðarlega háar fjárhæðir fyrir útblástursheimildir svo allir eru að taka á sig byrðar í þessum efnum,“ heldur Birgir áfram og bætir því við að stundum virðist sem enginn hafi hugsað út í jaðarhagsmuni á borð við þá sem Ísland eigi á þessum vettvangi.

„Ég hef alveg fulla trúa á því að okkar stjórnvöld nái að semja um einhverja góða lendingu í málinu,“ segir Birgir Jónsson, forstjóri Play, að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert