Dæmi um „misnotkun“ á flóttamannasamningi SÞ

Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra telur að auglýsing á landinu í þessu …
Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra telur að auglýsing á landinu í þessu samhengi beri með sér misnotkun á flóttamannaákvæði Sameinuðu þjóðanna. Samsett mynd

„Ef við viljum eitthvað ráða við þennan málaflokk þá þurfum við að girða okkur í brók til þess að hátta málum hér með svipuðum hætti og gert er á löndunum í kringum okkur,“ segir Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra í tengslum við auglýsingar sem enn eru í birtingu þar sem ágæti Íslands fyrir innflytjendur frá Venesúela er auglýst.

Flóttamannasamningur fyrir fólk í bráðri hættu 

Telur Jón að auglýsing á landinu í þessu samhengi beri með sér misnotkun á flóttamannaákvæði Sameinuðu þjóðanna. „Verið er að misnota flóttamannasamning Sameinuðu þjóðanna hvort sem það er fólk frá Venesúela eða öðrum löndum þar sem fólk kemur ekki frá svæðum sem falla undir skilgreiningu þeirra sem eru í bráðri hættu,“ segir Jón.

Úrskurðarnefndin með ákvörðunarvald

Orsakir fjölda umsækjenda frá Venesúela hingað til lands á rætur sínar að rekja til úrskurðarnefndar útlendingamála sem kvað á  um að veita ætti fólki frá landinu sérstaka viðbótarvernd. „Ég held að það séu ekki mörg fordæmi um slíkt í Evrópu. Engin lagabreyting hefði tekið á því. Eftir sem áður er úrskurðarnefndin með ákvörðunarvald um vernd,“ segir Jón.

Vill rýmka löggjöf um atvinnu og dvalarleyfi

En má líta á þetta sem tækifæri fyrir íslenskan vinnumarkað þar sem talað er um að skortur er á vinnuafli?

„Það er mikilvægt að átta sig á því að flóttamannasamningurinn gengur út að skjóta skjólhúsi yfir fólk þar sem líf og limir þess eru í hættu. Það á ekki að vera leið fyrir fólk að leita að betra lífsviðurværi. Svo er annað mál að við Sjálfstæðismenn höfum verið hvattir til að breyta löggjöf er varðar dvalar og atvinnuleyfi. Meðal annars er ákall frá atvinnulífinu um það og ég held að það sé vert að gera það. En að vera að nota flóttamannkerfið í því samhengi býður þeirri hættu heim að það kerfi verði eyðilagt," segir Jón.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert