„Við höfum sent þér einkaskilaboð“

Markaðs- og ferðaskrifstofur í Venesúela eru ekki af baki dottnar við að kynna Ísland sem besta áfangastaðinn fyrir borgara landsins að flytja til. Er markaðsteymi ferðaskrifstofu gjarnt á að senda þeim sem vilja einkaskilaboð, hvort sem það er til fólks sem vill frekari upplýsingar eða þeirra sem benda á að ekki sé allt gull sem glóir á Íslandi.   

Rúmlega 1.200 manns hafa tjáð sig og ríflega 3.800 líkað við um 12 klukkustunda gamla færslu frá ferðaskrifstofu Make travalgo í Venesúela á Instagram.

Nokkra athygli vakti þegar Ísland var kynnt sem áfangastaður fyrir innflytjendur frá Venesúela í síðustu viku. Þau myndbönd hurfu flest þegar málið komst í hámæli á Íslandi en ferðaskrifstofur auglýsa enn.  

Í færslunni er bent á að á Íslandi séu lágmarkslaun 3.000 evrur, skortur séu á innfluttu vinnuafli, vel sé tekið á móti útlendingum og að á Íslandi sé sterkt almannatryggingakerfi. 

Margir hafa tjáð sig við færsluna og ef marka má viðbrögð fólks eru margir áhugasamir. Flestir biðja um nánari upplýsingar og sendir auglýsandinn fólki þær í einkaskilaboðum með orðum á borð við „við höfum sent þér einkaskilaboð.“

Er vel tekið á móti fólki yfir fimmtugu?  

Spyr einn hvort vel sé tekið á móti þeim sem komnir eru yfir fimmtugt á meðan aðrir spyrja um tungumál og hvers kyns vinnuafli sé leitast eftir svo dæmi séu nefnd. Aðrir benda á dýrtíðina í landinu og segja að launin séu fljót að fara á Íslandi en þeir fá skilaboð sem og aðrir.   

Ferðaskrifstofan auglýsir að kostnaður við flug til Íslands sé um 1.000 dollarar aðra leið eða því sem nemur um 145.000 kr. 

Í nýjum útlendingalögum er sama fyrirkomulag þegar kemur að efnahagsflóttamönnum og var áður. Úrskurðarnefnd tekur þau mál til umfjöllunar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert