Lægðirnar mögulega að syngja sitt síðasta

Viðvörunum í ýmsum litum fer vonandi fækkandi.
Viðvörunum í ýmsum litum fer vonandi fækkandi. Kort/Veðurstofa Íslands

Skyndihlýnun í heiðhvolfinu gæti loksins komið veðurbörðum landanum til bjargar, en hún mun að öllum líkindum boða brotthvarf lægðahraðbrautarinnar sem hefur legið yfir landinu um nokkurt skeið.

Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur segir á veðurvef sínum Bliku að við sérstakar aðstæður berist varmi neðan úr veðrahvolfinu og upp í heiðhvolfið. Þessarar hlýnunar hefur orðið vart síðustu daga, og í 30 km hæð hefur hlýnað frá um -50°C í 0°C.  Það hefur þær afleiðingar að heiðhvolfshvirfillinn brotnar saman á nokkrum sólarhringum og vestanvindurinn með, en 10-15 dögum síðar varpist þessi hægari vindur niður í veðrahvolfið. Þá dragi mjög úr lægðagangi yfir Atlantshafið, og þar með hér.

Sambærileg skyndihlýnun varð í febrúar 2018, og þótti mánuðurinn hægviðrasamur og lítið um illviðri. Einar segir það sama hafi verið uppi á teningnum í lok janúar 2009,. Þá tók ekki nema 8-10 daga að hægja á lægðagangi sem hafði verið fjörugur vikurnar á undan. Langtímaspám ber þó ekki alveg saman um hver áhrifin af þessari skyndihlýnun verða, og segir Einar dæmi um að hún hafi lítil áhrif á hringrásina í veðrahvolfinu. Þau séu þó færri en þessar drastísku breytingar sem verða í veðrinu í kjölfarið. Áhrifin vara þá í nokkrar vikur. Hér á landi með hæðum í stað vetrarlægða.

Veðurvefur mbl.is

mbl.is