Engir styrkir frá Eflingu vegna verkbanns

Engar greiðslur úr sjóðum Eflingar eru í boði fyrir þá …
Engar greiðslur úr sjóðum Eflingar eru í boði fyrir þá sem verða fyrir tekjumissi vegna verkbanns Samtaka atvinnulífsins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Efling mun ekki greiða neina styrki úr vinnudeilusjóði til félagsfólks vegna verkbanns, enda er verkbann ekki á ábyrgð félagsins auk þess sem vinnudeilusjóður stendur ekki undir þeim greiðslum,“ segir í sérstakri tilkynningu til félagsmanna Eflingar á heimasíðu stéttarfélagsins vegna verkbanns sem félagsmenn Samtaka atvinnulífsins (SA) greiða nú atkvæði um.

„Verkbann er einhliða þvingunaraðgerð sem atvinnurekandi kýs að beita, í stað þess að leysa málin með samningum við stéttarfélag síns starfsfólks. Kjósi atvinnurekandi að beita verkbanni gegn starfsfólki sínu er það alfarið á ábyrgð hans, ekki stéttarfélags,“ segir í tilkynnignunni.

Hvetja til mótmæla

Þá hvetur Efling félagsfólk til að óska eftir afstöðu síns atvinnurekenda til hvort verkbanni verði beitt og heitir stéttarfélagið því að kalla „félagsfólk til víðtækra mótmælaaðgerða gegn þeim atvinnurekendum sem beita því.“

Fullyrðir Efling að verkbannið sé til þess fallið að „neyða verkafólk til að sætta sig við verri útkomu í kjarasamningagerð en ella“ og að stéttarfélagið vilji „leysa kjaradeilu við SA við samningsborðið. Samninganefnd Eflingar hefur stundað viðræður við SA í góðri trú og lagt fram málamiðlanir sem eru ásættanlegar fyrir atvinnurekendur.“

Þetta er í takti við yfirlýsingu Sólveigar Önnu Jónsdóttur, formanns Eflingar, í viðtali við mbl.is fyrr í dag. Þar sagði hún að með boðun verkbanns hafi SA lýst yfir stríði við „hátt í 21.000 manna hóp verka- og láglaunafólks á höfuðborgarsvæðinu, komin í stríð við vinnuaflið sem knýr allt áfram og það er merkilegt að verða vitni að því.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert