Um 50 skjálftar síðasta sólarhring

Tveir 2,8 stiga skjálftar hafa orðið í hrinunni.
Tveir 2,8 stiga skjálftar hafa orðið í hrinunni. Kort/Veðurstofa Íslands

Tæplega 50 jarðskjálftar hafa orðið suðvestur af Reykjanestá síðasta sólarhringinn. Þar af hafa orðið tveir skjálftar af stærðinni 2,8, sá fyrri klukkan 19.15 í gærkvöldi og sá síðari klukkan 4.41 í nótt.

Að sögn Einars Bessa Gestssonar, náttúruvársérfræðings Veðurstofu Íslands, byrjaði hrinan á svæðinu um þrjúleytið í nótt. Hún er þó ekki eins öflug og síðasta skjálftahrina á Reykjanestá sem varð 11. febrúar. Þá mældist stærsti skjálftinn 3,6 stig og var sú hrina um 7 til 10 km suðvestur af Reykjanestá.

Mesta virknin í dag hefur aftur á móti verið tæpum 30 km suðvestur af Reykjanestá, eða úti í sjó.

Spurður segir Einar Bessi skjálftavirknina áður en eldgosið í Fagradalsfjalli hófst hafa helst verið í kringum fjallið sjálft og á svæði frá Grindavík að Kleifarvatni. Um annað svæði sé því að ræða núna. 

Lesið þið eitthvað sérstakt í þessa skjálftahrinu?

„Við fylgjumst alltaf sérstaklega vel með þegar við fáum svona hrinur en það er ekkert meira sem við erum að lesa í þetta núna. Við fylgjumst með og skoðum stöðuna,“ segir hann.

mbl.is