Yfirvinnubann samþykkt 

Á Keflavíkurflugvelli.
Á Keflavíkurflugvelli. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Félagsmenn í Félagi flugmálastarfsmanna hafa samþykkt með miklum meirihluta í atkvæðagreiðslu að félagsmenn sem vinna hjá Isavia ofh. og dótturfélögum þess fari í  ótímabundið yfirfvinnubann kl. 16 föstudaginn 3. mars hafi kjarasamningar ekki náðst fyrir þann tíma.  

Já sögðu 77,54%, nei sögðu 10,77% en 11,69% tóku ekki afstöðu. 325 greiddu atkvæði og var kjörsóknin 80,9%. Boðað hefur verið til sáttafundar í deilunni í næstu viku.  

Unnar Örn Ólafsson, formaður FFR, segist vona að þessi niðurstaða hreyfi við viðsemjendunum svo hægt verði að ganga frá samningi áður en aðgerðirnar eiga að koma til framkvæmda.  

Spurður um áhrif yfirvinnubannsins ef til þess kemur segir hann að aðgerðirnar muni örugglega hægja á flæði um Keflavíkurflugvöll bæði fluginu og umferð farþega um völlinn.  

Félagsmenn FFR eru meðal annars flugöryggisverðir, rafeindavirkjar, smiðir, flugfjarskiptamenn, flugvallareftirlitsmenn, skrifstofufólk, flugkortagerðarmenn, radíóeftirlitsmenn og kerfisstjórar svo eitthvað sé nefnt. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert