Hraunið í Öskju rann sem bráðið smjör

Öskjuvatn. Stór vök hefur vakið athygli og verið sett í …
Öskjuvatn. Stór vök hefur vakið athygli og verið sett í samhengi við að hugsanlega sé eldstöðin að vakna eftir áratugalangan dvala. mbl.is/Árni Sæberg

Landris í Öskju, sem væntanlega má rekja til kvikuhreyfinga djúpt í iðrum jarðar, hefur á síðustu mánuðum mælst um einn millimetri á dag. Þróun þessi fór af stað í ágúst 2021 og hefur haldist óslitið síðan.

„Landrisið sem mælst hefur að undanförnu er mjög reglulegt en hraði þess er ekki sérlega mikill. Var mun meiri til dæmis í Kröflueldum þegar land við Leirhnjúk og þar í kring reis að jafnaði um fimm millimetra á dag. Í þeim atburðum urðu alls níu eldgos á níu árum,“ segir Páll Einarsson jarðeðlisfræðingur.

Stórkostlegir og ótrúlegir

Á 20. öld gaus nokkrum sinnum og má sjá litla hraunbleðla víða á svæðinu sem þá urðu til, t.d. Bátshraun, Kvíslahraun, Suðurbotnahraun, Hornfirðingahólma, Mývetningahraun, Ólafsgígahraun og Þorvaldshraun. Flest gosin sáust illa eða ekki úr byggð.

Síðast gaus í Öskju haustið 1961, það er norðanvert í Dyngjufjöllum þar sem nú heita Vikraborgir. Gosið stóð í rúman mánuð og ummerki þess eru úfið apalhraun. Á flesta mælikvarða var þetta ekki stórt gos, en samtímalýsingar í Morgunblaðinu voru sterkar.

„Eldstólparnir eru stórkostlegir, ótrúlegir. Hraunstraumurinn er svo stórkostlegur að við höfum aldrei séð neitt þvílíkt. Hraunið rennur eins og bráðið smjör,“ hafði blaðið eftir Agnari Kofoed-Hansen flugmálastjóra. Hvað kann svo að gerast nú veit enginn, nema að eldgos eru í háskaleik sínum alltaf stórbrotin.

Ítarlegri umfjöllun er að finna á síðu 14 í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert