Jón Björn greiðir fasteignagjöldin afturvirkt

Jón Björn Hákonarson, bæjarstjóri Fjarðabyggðar.
Jón Björn Hákonarson, bæjarstjóri Fjarðabyggðar. Ljósmynd/Aðsend

Fjármálastjóri Fjarðabyggðar hefur samið við Jón Björn Hákonarson, fráfarandi bæjarstjóra Fjarðabyggðar, um að greiða samtals 72.504 krónur afturvirkt í fasteignagjöld af sumarhúsi sínu í Fjarðabyggð. Þetta kemur fram í fundargerð bæjarráðs Fjarðabyggðar frá því í gær. Austurfrétt greindi fyrst frá.

Eins og mbl.is greindi frá óskaði Jón Björn eft­ir því að láta af störf­um fyrir rúmri viku síðan vegna ásakana um að hafa látið undir höfuð leggjast að greiða fasteignagjöld af sumarhúsi sínu í sveitarfélaginu. 

Samkvæmt samkomulaginu mun Jón Björn greiða fasteignagjöld afturvirkt frá þeim tíma sem samþykkt deiliskipulag lá fyrir. Um er að ræða fasteignagjöld fyrir árin 2019, 2020, 2021 og 2022 samtals að upphæð 72.504 kr., sem er í samræmi við álagningu miðað við fasteignarmat útgefið af Húsnæðismálastofnun.

Langvinnar deilur landeiganda sem Jón Björn hafi ekki komið að 

Málið er rakið í minnisblaði fjármálastjóra, sem lá fyrir fundinum. Kom það fyrst til árið 2006 og var landeiganda þá strax veitt bráðabirgðaleyfi fyrir umræddum sumarhúsum í landi Fannardals.

Langvinnar deilur landeiganda við sveitarfélagið hafi síðan gert að verkum að vinna við deiliskipulag jarðarinnar dróst á langinn og þar af leiðandi var ekki hægt að ljúka skráningu eigna á svæðinu fyrr en 2018, þegar deiliskipulag svæðisins var samþykkt. Segir í fundargerð bæjarráðs að „Jón Björn Hákonarson hafði enga aðkomu að þeim deilum, var ekki á neinum tímapunkti eigandi jarðarinnar og gat því lítið aðhafst til að ljúka skráningu á sínu húsi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert