Margir skipt yfir í rafmagnsbíla vegna verkfalls

Mörg fyrirtæki hafa ákveðið að skipta yfir í rafmagnsbíla vegna …
Mörg fyrirtæki hafa ákveðið að skipta yfir í rafmagnsbíla vegna möguleika á bensinskorti.

Vegna ótta við yfirvofandi bensínskort hafa tugir viðskiptavina Bílaleigu Flugleiða skipt bílum sínum út fyrir rafmagnsbíla. Þetta segir Sigfús Bjarni Sigfússon, forstjóri bílaleigunnar, í samtali við mbl.is.

Bílaleigan leigir gjarnan út bíla til fyrirtækja og ríkisstofnana en að sögn Sigfúsar óskuðu fyrirtæki eftir því að skipta yfir í rafbíla um leið og umræða um hugsanlegan bensínskort gerði við sig vart.

Bílaleiga Flugleiða ehf. var stofnuð árið 1971 og hefur verið …
Bílaleiga Flugleiða ehf. var stofnuð árið 1971 og hefur verið sérleyfishafi bílaleigunnar Hertz á Íslandi frá árinu 1973. Ljósmynd/Aðsend

„Bara um leið og menn fundu fyrir því að það yrði einhver skortur, þá hringdu fyrirtækin og vildu skipta yfir í rafmagnsbíla.“

Segir hann dæmi um að fyrirtæki hafi skipt gervöllum vinnubílaflota sínum út fyrir rafbíla og mörg séu búin að óska eftir nýjum samningum.

„Við fundum greinilega fyrir aukningu í eftirspurn eftir rafmagnsbílum,“ segir hann og bætir við að hann hafi einnig tekið eftir því að nýir viðskiptavinir sýni meiri áhuga á rafbílum en áður fyrr. 

Hins vegar segir hann að einstaklingar með bíla í langtímaleigu hjá þeim hafi ekki verið jafn virkir í orkuskiptunum, enda eru rafmagnsbílar oft dýrari í leigu en bensínbílar, en þó séu einhverjir sem hafa skipt yfir.

mbl.is