Neyðarráðstöfun að flytja starfsemina

Heilsugæslan á höfuðborgarsvæðinu vill ekki flytja starfsemina í annað tímabundið …
Heilsugæslan á höfuðborgarsvæðinu vill ekki flytja starfsemina í annað tímabundið húsnæði. Ljósmynd/Heilsugæslan á höfuðborgarsvæðinu

„Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins lítur á það sem neyðarráðstöfun að færa starfsemi stöðvarinnar í Hraunbæ 115,“ segir í minnisblaði Heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu um þá ákvörðun að flytja alla starfsemi Heilsu­gæslu Grafar­vogs tíma­bundið í Árbæ­ vegna yf­ir­stand­andi viðgerða á hús­næðinu heilsugæslunnar í Spöng­inni.

Mbl.is hefur minnisblaðið undir höndum.

Starfsemi heilsugæslunnar var flutt að fullu í Árbæ í lok febrúar. Búist er við að viðgerðum á húsnæði heilsugæslunnar ljúki snemma á næsta ári.

Fundu ekki húsnæði

Á borgarráðsfundi á fimmtudaginn lögðu borg­ar­full­trú­ar Sjálf­stæðis­flokks­ til að Reykja­vík­ur­borg myndi útvega bráðabirgðahús­næði fyr­ir heilsugæsluna í hverf­inu, eða hafa milli­göngu um það.

Óskar Sesar Reykdalsson, forstjóri Heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu, segir að mikið púður hafi verið lagt í að finna húsnæði í hverfinu. Það hafi hins vegar ekki gengið upp.

„Okkur finnst leiðinlegt að þetta gekk ekki upp,“ segir Óskar Sesar Reykdalsson í samtali við mbl.is.

Samkvæmt minnisblaðinu var leitað til leigufélaga og fasteignasala sem þekkja vel til atvinnuhúsnæðis í hverfinu. Einnig fór starfsfólk Heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu sjálft um hverfið í leit að lausu húsnæði sem gæti hentað.

Vilja ekki fara í annað tímabundið húsnæði

Þá kemur fram í minnisblaðinu að Heilsugæslan á höfuðborgarsvæðinu vilji ekki flytja starfsemi Heilsugæslu Grafarvogs í annað tímabundið húsnæði.

„Það er þó ljóst að á þessum tímapunkti myndi litlu breyta að finna nýtt húsnæði. Talsverðar breytingar þyrfti að gera á hvaða húsnæði sem stæði til boða áður en hægt væri að opna þar heilsugæslustöð, enda ríkar kröfur gerðar til aðstöðu og aðgengis í fyrir svo sérhæfða starfsemi. Þá tekur tíma að undirbúa flutninga og þeim fylgir óneitanlega mikið rask fyrir bæði skjólstæðinga og starfsfólk.

Það myndi því ekki koma til greina af hálfu stofnunarinnar að flytja stöðina aftur í annað tímabundið húsnæði, enda myndi undirbúningur fyrir slíka flutninga að líkindum taka talsverðan hluta af þeim tíma sem eftir er þar til húsnæðið í Spönginni verður tilbúið aftur. Slíkir flutningar myndu eins og áður segir auka enn á raskið fyrir skjólstæðinga og starfsfólk fyrir afar takmarkaðan ávinning,“ segir í minnisblaðinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert