Safnið féll í vanhirðu við ákvörðun borgarstjórnar

„Hluti safnkostsins er sérhæfður bókakostur sem hefur verið byggður upp …
„Hluti safnkostsins er sérhæfður bókakostur sem hefur verið byggður upp af kynslóðum starfsmanna Borgarskjalasafnsins,“ segir Hrafn í greininni. mbl.is/Árni Sæberg

„Við ákvörðun borgarstjórnar féll Borgarskjalasafn Reykjavíkur í vanhirðu. Þjóðskjalaverði ber nú að færa safnkostinn í örugga vörslu Þjóðskjalasafnsins á kostnað Reykjavíkurborgar. Borgarstjórn hefur með þessu stofnað til óvissra útgjalda.“

Þetta skrifar Hrafn Sveinbjarnarson, sem er sagnfræðingur og hefur starfað að opinberri skjalavörslu í um aldarfjórðung, nú sem héraðsskjalavörður Kópavogs, í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag. 

Furðuleg ákvörðun

Í greininni segir að það hafi verið furðuleg ákvörðun hjá Reykjavíkurborg að leggja Borgarskjalasafnið niður 7. mars sl. Hann vekur athygli á því, að frá faglegu sjónarmiði vakni nú spurningar um stöðu safnkosts stofnunar sem sé ekki lengur til. 

Hrafn Sveinbjarnarson.
Hrafn Sveinbjarnarson. mbl.is/RAX

„Engin áætlun virðist vera til um hvað gera skal við safnkost Borgarskjalasafns. Reykjavíkurborg hefur að lögum ekki forræði yfir honum vegna ákvörðunar borgarstjórnar. Óvíst er að borgarfulltrúar hafi gert sér grein fyrir því. Við ákvörðun borgarstjórnar féll Borgarskjalasafn Reykjavíkur í vanhirðu. Þjóðskjalaverði ber nú að færa safnkostinn í örugga vörslu Þjóðskjalasafnsins á kostnað Reykjavíkurborgar. Borgarstjórn hefur með þessu stofnað til óvissra útgjalda. Borgin hefur enga samningsstöðu, ekki heldur Þjóðskjalasafn, nú tala lögin. Starfsmenn Borgarskjalasafns starfa nú án stofnunarinnar og vafasamt að þeim sé heimilt að veita aðgengi að safnkostinum. Þessir starfsmenn eru þó nauðsynlegir áfram vegna þess að þeir þekkja safnkostinn,“ skrifar Hrafn. 

Ekki einföld lagerstörf

Hann tekur fram að störf opinberra skjalasafna séu ekki einföld lagerstörf. Þau snúist um gagnaöryggi, trúnað og traust. Þá kemur fram í greininni, að Reykjavíkurborg hafi afsalað sér langtímavörslu skjala sinna til Þjóðskjalasafns Íslands, samningslaust.

„Aðrar hugmyndir sem heyrst hafa innan úr borgarkerfinu eru á þeim nótum að 40% skjala Borgarskjalasafns verði skönnuð og frumritunum á pappír fargað, því að hin stafræna framtíð blasi við, veröld ný og góð. Þessu mætti líkja við að Listasafn Reykjavíkur yrði lagt niður og 40% listaverkanna ljósmynduð stafrænt og þeim verkum fargað,“ skrifar Hrafn enn fremur. 

Vandinn aðeins leystur á einn veg

Að lokum segir Hrafn, að vandi Reykjavíkurborgar, Þjóðskjalasafns og menningarmálaráðherra verði aðeins leystur á einn veg úr þessu, svo vel fari, án þess að hætt sé við lögbroti.

„Það er að leita til Alþingis um að breyta 10. grein laga um opinber skjalasöfn nr. 77/2014 þannig að sérhverju sveitarfélagi sé skylt að reka héraðsskjalasafn, annaðhvort einu sér eða í félagi við önnur sveitarfélög. Með því yrði Reykjavíkurborg gert skylt að stofna skjalasafn sitt að nýju og um leið yrði skjölum allra sveitarfélaga landsins borgið.“

Áskrifendur geta lesið greinina í heild sinni hér. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert