Lagasetning ef ekki næst lausn á næstu vikum

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri og Gunnar Jakobsson varaseðlabankastjóri fjármálastöðugleika á nefndarfundi …
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri og Gunnar Jakobsson varaseðlabankastjóri fjármálastöðugleika á nefndarfundi Alþingis nýlega. mbl.is/Kristinn Magnússon

Seðlabanki Íslands telur þjóðhagslega ógn stafa af núverandi fyrirkomulagi smágreiðslumiðlunar hér á landi. Er það vegna þess að stærstur hluti miðlunarinnar fer í gegnum kerfi erlendra fyrirtækja. Unnið hefur verið að lausn með innlendum aðilum, en ef ekkert kemur úr því á næstu vikum segir Seðlabankinn að stefnt verði á lagasetningu sem kveði á um að miðlunin fari fram hér á landi. Þetta kom fram í máli Gunnars Jakobssonar, aðstoðarseðlabankastjóra fjármálastöðugleika, á fundi fjármálastöðugleikanefndar bankans í morgun og var jafnframt ítrekað í nýjasta hefi Fjármálastöðugleika sem kom út í morgun.

90% smágreiðslna á borði erlendra fyrirtæki

Rúmlega 90% af innlendri smágreiðslumiðlunar fer í dag fram með greiðslukortum og í 99% tilfella er um að ræða kort sem útgefin eru af Visa og MasterCard eða snjallforritum sem byggjast á tengingu við þau. Þar með fer stærsti hluti smágreiðslumiðlunar í gegnum innviði þessara erlendra fyrirtækja, en þetta á bæði við um heimildargjöf og jöfnun innlendra kreditkorta.

Núverandi högun talin ógn við þjóðaröryggi

Í sérriti Seðlabankans sem kom út í síðasta mánuði var farið yfir þessi mál og á fundi fjármálastöðugleikanefndar í dag var mikilvægi þessa máls ítrekað. „Núverandi högun rafrænnar greiðslumiðlunar á Íslandi er talin ógna þjóðaröryggi. Traust og örugg greiðslumiðlun er ein undirstaða virkni hagkerfisins og efnahagslegrar velsældar,” segir berum orðum í ritinu frá í febrúar. Þá hefur þjóðaröryggisráð í skýrslu sinni í desember einnig bent á nauðsyn þess að koma upp slíkri greiðslulausn hér á landi sem allra fyrst.

Netárásir eða alþjóðastjórnmála ágreiningur

Er þar farið yfir þörf þess að innleiða greiðslulausnir hér á landi þar sem innlendir innviðir eru nýttir til að efla betur viðnámsþrótt innlendrar smágreiðslumiðlunar ef upp kemur þjónusturof. Er meðal annars vísað til þess að slíkt geti komið til vegna „rofs á netsambandi, rafmagnsleysis, netárása eða viðskiptalegs eða alþjóðastjórnmálalegs ágreinings.“ Í viðtali í Speglinum á Rás 2 í síðasta mánuði nefndi Gunnar meðal annars að ef Bandaríkin myndu taka ákvörðun, sem hefði þótt óhugsandi fyrir 6-8 árum, um að einkafyrirtæki skyldi ekki eiga í viðskiptum við ákveðin lönd eða beita viðskiptaþvingunum, þá komi í ljós að áhættan sé raunverulegri en mögulega var áður talið.

Gagnsæi um kostnað ábótavant hér á landi

Í ritinu frá í febrúar er jafnframt bent á að kreditkortanotkun hér á landi sé mun meiri en víða erlendis þrátt fyrir að kostnaður við notkun þeirra sé að jafnaði meiri en við notkun debetkorta. „Kostnaðurinn er oftast hluti af verði á vöru og þjónustu,“ segir í ritinu og tekið er fram að gagnsæi um kostnað í greiðslumiðlun sé ábótavant hér á landi, en um leið er slíkt gagnsæi grundvallarforsenda þess að unnt sé að stuðla að aukinni hagkvæmni fyrir neytendur, til hagsbóta fyrir bæði atvinnulífið og almenning.

Gunnar sagði á fundinum að unnið væri að útfærslu og lausn þessa máls og að horft sé til þess að ná saman við innlenda aðila eins og Reiknistofu bankanna og viðskiptabankana. Takist það ekki sé lagasetning næsta skref „Ef það tekst ekki á næstu vikum erum við búin að hefja samtal við stjórnvöld og stjórnvöld eru reiðubúin að setja lög um þetta. Þetta er samtal sem við teljum að sé gríðarlega mikilvægt og við viljum auðvitað frekar ná að vinna þetta saman, en ef það næst ekki að vinna þetta saman þá verðum við út frá þjóðaröryggi að tryggja hagsmuni allra og almennings alls á Íslandi,“ sagði Gunnar á fundinum.

Tvær lausnir vænlegastar

Samkvæmt mati Seðlabankans eru tveir möguleikar vænlegastir þegar kemur að innleiðingu óháðrar smágreiðslulausnar: „Annars vegar innlend debetkortalausn, til dæmis svokölluð „co-badged“ debetkort, sem tryggir að heimildargjöf innlendra debetkorta sé óháð erlendum innviðum vegna greiðslna hér á landi og hins vegar smágreiðsla milli bankareikninga „account to account“ nefnd RÍR-lausn (reikningur í reikning). Notkun RÍR-lausna hefur farið vaxandi í heiminum. Unnt er að byggja RÍR-lausn ofan á grunninnviði bankakerfisins og opna þannig fyrir möguleika banka og annarra til að bjóða fjölbreyttari innlendar greiðsluleiðir við sölu á vöru og þjónustu hér á landi.”

Þá kemur einnig fram í skýrslu fjármálastöðugleikanefndar að fyrstu skrefin í átt að slíkri innlendri óháðri greiðslulausn hafi þegar verið tekin, m.a. með endurskipulagningu á rekstri íslenskra fjármálainnviða og innleiðingu nýrra innlánakerfa

mbl.is