Orkuframleiðslan „ekki góður nágranni“

Frá vinstri: Haraldur Þór Jónsson, oddviti sveitarstjórnar og sveitarstjóri Skeiða- …
Frá vinstri: Haraldur Þór Jónsson, oddviti sveitarstjórnar og sveitarstjóri Skeiða- og Gnúpverjahrepps, Guðmundur Haukur Jakobsson, forseti sveitarstjórnar Húnabyggðar, og Pétur Arason sveitarstjóri Húnabyggðar. Ljósmynd/Aðsend

Sveitarstjórn Húnabyggðar tekur undir bókanir frá Skeiða- og Gnúpverjahreppi og Samtökum orkusveitarfélaga um að nauðsynlegt sé að breyta raforkulögum. Þetta kemur fram í nýrri tilkynningu frá sveitarstjórninni.

Í þeim bókunum sem vitnað er í er farið fram á að tryggt sé í lögum að hagsmunum nærsamfélaga, þar sem orka á uppsprettu sína, njóti efnahagslegs ávinnings.

Bent er á að hagvöxtur Íslands byggi að miklu leyti á orkuframleiðslu. Ýmis verkefni sem eru í bígerð séu háð orkuframleiðslu. Í tilkynningunni kemur það fram að sveitarfélög sem eru í nágrenni við orkuveitur hagnist lítið af orkuframleiðslunni.

Skorar á ríkisstjórnina

Sveitarstjórn Húnabyggðar leggur því áherslu á að staldrað verði við í skipulagsmálum sem varða uppbyggingu orkumannvirkja þar til sátt næst í málinu. Þar er átt við allar framkvæmdir sem snerta raforkumál í sveitarfélaginu – vatnsaflsframkvæmdir, vindorkuframkvæmdir og framkvæmdir við flutningskerfi orkuframleiðslunnar.

Sveitarstjórn Húnabyggðar skorar á ríkisstjórn að finna lausnir í málinu í samvinnu við sveitarfélög og tryggja á þann hátt nauðsynlega uppbyggingu raforkukerfisins sem við blasi.

„Fyrirliggjandi orkuskipti eru einnig háð aukinni orkuframleiðslu og því blasir það við að tryggja þarf orkuframleiðslu til að mæta þessari eftirspurn,“ segir í tilkynningunni.

Sveitarstjórnin heldur því einnig fram að orkuframleiðslan sé „ekki góður nágranni“, að því leyti að fá virkjunarmannvirki bera fasteignaskatt og fá störf tengjast þeim. Því skili stór og meðalstór fyrirtæki mun meiri verðmætum í nærsamfélagið en orkuframleiðslan, óháð iðnaði. 

Einnig er greiðslna krafist vegna raforkuflutningsmannvirkja sem liggja þvert yfir sveitarfélög. 

Sveitarstjórnin kveðst telja að ef kröfunum verði mætt muni það flýta fyrir framkvæmdum og auka líkurnar á að markmiðum um aukna atvinnuuppbyggingu og orkuskipti verði náð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert