Sá móður sína tekna hálstaki í sumarhúsi

Landsréttur.
Landsréttur. mbl.is/Kristinn Magnússon

Landsréttur hefur staðfest dóm Héraðsdóms Suðurlands frá síðasta ári þegar karlmaður var dæmdur í 45 daga skilorðsbundið fangelsi og til greiðslu miskabóta fyrir líkamsárás í sumarhúsi.

Veittist hann að þáverandi kærustu sinni og hrinti með þeim afleiðingum að hún féll á gólf. Þar sem hún lá tók hann hana hálstaki með þeim afleiðingum að hún hlaut yfirborðsáverka á hálsi og mar á brjóstkassa, öxl, upphandlegg, mjóbaki og mjaðmagrind.

Hann var einnig sakfelldur fyrir brot gegn barnaverndarlögum með því að hafa ráðist á konuna að viðstöddum syni konunnar. Vaknaði sonurinn af nætursvefni og varð óttasleginn er hann varð vitni að því þegar maðurinn tók móður hans hálstaki.

Maðurinn var einnig dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, eða um 1,4 milljónir króna.

mbl.is