Fær 2,5 milljónir í bætur vegna ólögmætrar uppsagnar

Ljósmynd/Colourbox

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur fallist á kröfu starfsmanns um skaðabætur vegna ólögmætrar uppsagnar þrátt fyrir að starfslokin hefðu átt sér stað með starfslokasamningi. Var fyrirtækið dæmt til að greiða starfsmanninum samtals 2,5 milljónir kr.

Starfsmaðurinn, sem er kona sem starfaði sem aðstoðarverslunarstjóri fyrirtækisins á árunum 2016 til 2021, höfðaði málið í júní í fyrra og krafðist alls 16 milljóna kr. í skaðabætur. En fyrirtækið fór fram á sýknu. 

Fram kemur í dómi héraðsdóms, sem féll 17. febrúar en var birtur í dag, að meginágreiningur aðila í málinu snúist um það hvort líta beri á starfslok konunnar 9. júní 2021 sem ólögmæta uppsögn eða ekki. Fyrirtækið vísar til þess að konan hafi sjálfviljug undirritað gagnkvæman samning um starfslok, án nokkurrar þvingunar af hálfu fyrirtækisins, sem hún sé bundin við. Því andmælti konan, sem taldi að um ólögmæta uppsögn hefði verið að ræða, þar sem við starfslok hennar hefði ekki verið fylgt ákvæðum laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, svo sem skylt hefði verið að gera. Fyrirtækið hefði þannig misbeitt valdi sínu við val á leiðum til úrlausnar máls. 

Sætti fjárkúgun

Þá kemur fram í dómnum, að aðilar séu í meginatriðum sammála um atvik málsins og aðdraganda starfsloka konunnar hjá fyrirtækinu. Þannig sé óumdeilt að konan hafði fengið persónulegt lán hjá nokkrum samstarfsmanna sinna í apríl og maí 2021, þ.á m. hjá yfirmanni sínum, vitninu C, verslunarstjóra. Í skýrslu vitnisins fyrir dómi kom sömuleiðis fram að viðmót og framkoma konunnar hefði tekið miklum breytingum á sama tíma, hún hefði alltaf verið mjög hress en hefði orðið fálát og mjög ólík sjálfri sér. Þá kom einnig fram hjá vitninu að konan hefði fram að því verið frábær starfsmaður og að þær tvær hefðu átt mjög gott samstarf. Konan hefur gefið þá skýringu á breyttri hegðun sinni að hún hafi sætt fjárkúgun og hótunum um ofbeldi af hendi tveggja manna á þessum tíma, en óumdeilt er að fyrirtækinu, þ.á m. vitninu, var ókunnugt um það er ákvörðun var tekin um starfslok konunnar. 

Héraðsdómur Reykjavíkur.
Héraðsdómur Reykjavíkur. mbl.is/Þór

Konan greindi m.a. frá því að hún hefði verið í andlegu ójafnvægi þegar hún skrifaði undir starfslokasamninginn og ófær um að meðtaka með skýrum hætti aðstæður. Það fær stoð, að mati dómsins í framburðum mannauðsstjóra fyrirtækisins og yfirmanns konunnar.

„Segir stefnandi jafnframt að boð um starfslok hafi komið henni í opna skjöldu á fundinum 9. júní 2021, sem eins og áður segir hafði verið undirbúinn af stefnda og stóð ekki nema í 20-25 mínútur. Upplifun hennar hafi verið sú að hún hefði ekki val um annað en að skrifa undir samninginn og þar með láta af störfum hjá stefnda. Því hafnar stefndi og vísar til þess að stefnandi hafi ekki verið beitt neinni þvingun til að fá hana til að undirrita samninginn,“ segir í dómi héraðsdóms. 

Átti flekklausan feril

Þar segir enn fremur, að starfslok konunnar, sem voru fyrirvaralaus, höfðu aldrei áður komið til tals á milli aðila og konan hafði eftir því sem best verður séð átt flekklausan feril sem starfsmaður hjá fyrirtækinu í fimm ár. Að þessu virtu þá verði að telja að starfslok hennar hafi í raun átt sér stað með uppsögn, þrátt fyrir að hún hafi ritað nafn sitt undir samning um starfslok á fundinum. Þá verði sömuleiðis að telja að um þá uppsögn hafi gilt ákvæði laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins og ákvæði stjórnsýslulaga. 

Héraðsdómur féllst á að fyrirtækið greiddi konunni skaðabætur vegna þess fjártjóns sem hún varð fyrir vegna þess hvernig starfslokin báru að. Var þá tekið tillit til þess að konan hefði notið greiðslna vegna veikinda sinna í kjölfar starfslokanna, sem þó voru lægri en laun hennar voru hjá fyrirtækinu. 

Vegið að orðspori og starfsheiðri

„Ákvörðun stefnda um starfslok stefnanda tengdist sem fyrr segir með beinum og ákveðnum hætti persónulegri háttsemi hennar sjálfrar, sem öðrum starfsmönnum B […] og stjórnendum stefnda var kunnugt um. Mátti stjórnendum stefnda sömuleiðis vera það ljóst að með starfslokum stefnanda, eins og að þeim var staðið, væri að ófyrirsynju vegið að persónulegu orðspori hennar og starfsheiðri, svo og að niðurstaða málsins væri til þess fallin að rýra álit annarra á stefnanda,“ segir í dómi héraðsdóms sem féllst á greiðslu miskabóta. 

Héraðsdómur komst að þeirri niðurstöðu að fyrirtækið bæri að greiða konunni 1,8 milljónir í bætur vegna fjártjóns sem hlaust af starfslokum hennar og 700.000 kr. í miskabætur, samtals 2,5 milljónir kr. 

mbl.is