Sögðu Gæsluna ekki geta sinnt útkallinu

Frá vettvangi, þegar viðbragðsaðilar gerðu sig klára í verkefnið.
Frá vettvangi, þegar viðbragðsaðilar gerðu sig klára í verkefnið. Ljósmynd/Lögreglan

Lögreglunni á Norðurlandi eystra var tilkynnt um slasaðan vélsleðamann við Gimbrarhnjúk í Göngustaðadal í Svarfaðardal, um klukkan 15.30 í dag.

Í kjölfarið voru sjúkraflutningamenn á Dalvík ræstir út sem og björgunarsveitir frá Dalvík og Akureyri.

Þá var óskað eftir aðstoð frá Landhelgisgæslunni en vegna annarra verkefna átti Gæslan ekki heimangengt í þetta verkefni, að því er fram kemur í tilkynningu frá lögregluembættinu.

Uppfært: Ásgeir Erlendsson, upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar, segir þetta ekki rétt. Gæslan hafi getað sinnt útkallinu, en sjúkrabíll hafi verið kominn á staðinn á undan þyrlunni.

Fyrst þurfti þyrlan einnig að snúa til baka úr öðru verkefni, þar sem sækja þurfti mann við Langjökul, og það hafi haft forgang.

Eins og mbl.is greindi frá fyrr í dag var þyrlusveit Gæslunnar kölluð tvisvar út vegna alvarlegra slysa í grennd við Langjökul.

Ekki talinn alvarlega slasaður

Í tilkynningu lögreglu segir að vel hafi gengið að koma sjúkraflutningamönnum til hins slasaða. Hann hafi svo verið fluttur með sjúkrabíl til aðhlynningar á heilbrigðisstofnun.

Ekki er talið að viðkomandi sé alvarlega slasaður.

https://www.mbl.is/frettir/innlent/2023/03/25/thyrlusveitin_kollud_ut_ad_dalvik/

mbl.is