Andlát: Guðmundur Ingi Eyjólfsson

Guðmundur Ingi Eyjólfsson læknir.
Guðmundur Ingi Eyjólfsson læknir. Ljósmynd/Aðsend

Guðmundur Ingi Eyjólfsson læknir lést á bráðadeild Landspítalans í Fossvogi 19. mars sl., 86 ára að aldri.

Guðmundur fæddist í Reykjavík 8. febrúar 1937, sonur hjónanna Eyjólfs Gíslasonar og Sigríðar Guðmundsdóttur.

Guðmundur ólst upp í Reykjavík. Hann lauk stúdentsprófi frá MR 1957 og læknaprófi frá Háskóla Íslands 1964. Hann stundaði sérfræðinám í lyflækningum og blóðsjúkdómum í Bandaríkjunum við háskólaspítala sem tengdust Loyola University og University of Chicago í Illinois 1965-1970. Hann starfaði sem héraðslæknir á Egilsstöðum, Borgarnesi og Kleppjárnsreykjum árin 1970-1971. Hann var ráðinn sérfræðingur í blóðsjúkdómum á rannsóknarstofu Borgarspítalans 1972 og einnig sem sérfræðingur á lyflækningadeild 1973. Þar starfaði hann til ársins 2005.

Guðmundur vann einnig sem sérfræðingur á eigin stofu frá 1973. Hann var einn af stofnendum Læknasetursins sf. 1986 og var lengi stjórnarformaður og framkvæmdastjóri. Hann stofnaði með fleirum Rannsóknastofuna í Mjódd 1993 og var framkvæmdastjóri til ársins 2021. Guðmundur vann á bæjarvöktum í Reykjavík 1972-1986. Hann var stundakennari við læknadeild HÍ og við Tækniskóla Íslands 1971-1996. Auk þess var hann í mörg ár prófdómari í lyflækningum við læknadeild HÍ.

Guðmundur sat í stórráði Læknafélags Reykjavíkur 1979-1982, var gjaldkeri félagsins 1982-1986 og gegndi störfum formanns í hálft ár í forföllum hans. Hann var formaður samninganefndar sjálfstætt starfandi lækna við Tryggingastofnun ríkisins 1986-1998. Guðmundur var heiðursfélagi í Læknafélagi Reykjavíkur frá 1999 og Læknafélagi Íslands frá 2018.

Guðmundur kvæntist eftirlifandi eiginkonu sinni, Kristínu Sigrúnu Bjarnadóttur, árið 1965. Þau eignuðust þrjú börn; Sif, Eddu og Bjarka. Barnabörnin eru fjögur; Lilja Ársól, Kristín Guðríður, Júlíus Ingi og María Lovísa Bjarkabörn.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert