„Lægra er ekki hægt að leggjast“

Þórunn Sveinbjarnardóttir og Jón Gunnarsson.
Þórunn Sveinbjarnardóttir og Jón Gunnarsson. Samsett mynd

Mikill hiti var á fundi Alþingis í dag þegar rætt var afhendingu gagna er varða veitingu ríkisborgararéttar. Allt ætlaði um koll að keyra þegar Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra sakaði þingmenn, sem eiga sæti í allsherjar- og menntamálnefnd, um að hafa þegið einhverskonar greiðslur eða „þakklætisvott“ í tengslum við störf sín í nefndinni. 

Þingmenn stjórnarandstöðunnar mótmæltu þessu harðlega og fóru fram á að hann myndi biðjast afsökunar. „Lægra er ekki hægt að leggjast hér á hinu háa Alþingi hæstvirtur forseti,“ sagði Þórunn Sveinbjarnardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar og formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis.  

Hefur mönnum borist þakklætisvottur

Hitt er svo hvernig staðið hefur verið að ríkisborgararéttarveitingu hér á Alþingi. Það held ég að sé tilefni til að skoða, virðulegur forseti. Það má líka skoða þar, til að mynda í nefndinni sem um þetta fjallaði, hver séu möguleg tengsl fólks við það fólk sem hefur verið veittur ríkisborgararéttur. Er mögulegt að einhverjir hafi komið að borðinu áður með atvinnu eða vinnu við að sinna þeim hælisleitendum sem voru að fá veitingu á ríkisborgararétti? Hefur mönnum borist einhver sérstakur þakklætisvottur fyrir að hafa veitt ríkisborgararétt? Þetta eru kannski atriði sem væri ástæða til að fá til skoðunar hjá nefndinni og fá svör við því hvort einhver orðrómur um slíkt eigi við rök að styðjast,“ sagði Jón í svari sínu og mætti um leið hörðum mótmælum úr röðum þingmanna stjórnarandstöðunnar. 

Þórunn kvað sér upphaflega hljóðs undir liðnum störf þingsins til að vekja athygli þingheims á minnisblaði frá skrifstofu Alþingis sem afhent var stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd í fyrradag. Hún sagði minnisblaðið varðar 51. gr. þingskapalaga er kvæði ótvírætt á um að afhenda beri Alþingi þau gögn sem beðið væri um.

Ákvörðun ráðherra fer í bága við þingskaparlög

„Þessi grein er sem sagt skoðuð í samspili, eins og það er orðað, við lögin um íslenskan ríkisborgararétt. Eins og öll í þessum sal vita hefur staðið mikil deila á milli dómsmálaráðuneytis, eða hæstvirts dómsmálaráðherra, og þingmanna, ekki síst úr allsherjar- og menntamálanefnd, um afhendingu gagna er varða veitingu ríkisborgararéttar. Frá því er að segja í mjög stuttu máli að niðurstaðan er ótvíræð og myndi í öllum öðrum samfélögum sem kenna sig við lýðræði hafa tilteknar afleiðingar. Það sem hér segir í minnisblaðinu, með leyfi forseta, er að ákvæði laga um veitingu ríkisborgararéttar bindi ekki hendur Alþingis og feli ekki í sér sérákvæði gagnvart 51. gr. þingskapalaga,“ sagði Þórunn.

„Á mannamáli heitir það að það ber að afhenda Alþingi þau gögn sem beðið er um, hvort sem það er um sérstök frumvörp eða önnur mál sem eru til umfjöllunar hér í þingnefndum. Það ber að afhenda þinginu gögnin og það á við um alla, líka hæstvirtan ráðherra, líka hæstvirtan dómsmálaráðherra. Niðurstaða minnisblaðsins er ótvíræð: Ákvörðun dómsmálaráðherra um að afhenda ekki gögn fer í bága við þingskapalögin,“ sagði Þórunn enn fremur.

Endurtekur slúðrið og lygina

Fleiri þingmenn stjórnarandstöðunnar tóku undir orð Þórunnar og hélt umræðan síðan áfram undir liðnum fundastjórn forseta þar sem hitinn í þingsal nálgaðist hratt suðumark, ekki síst eftir ræðu dómsmálaráðherra, sem endaði með því að þingmenn báru af sér sakir og kröfðust afsökunarbeiðni af hálfu ráðherra. 

Í kjölfar ræðu Jóns kvað Þórunn sér aftur hljóðs þar sem hún spurði hvernig forseti Alþingis gæti látið það viðgangast að dómsmálaráðherra bæri á borð atvinnuróg og dylgjur um þingmennina sem eiga sæti í allsherjar- og menntamálanefnd.

„Endurtekur slúðrið og lygina eins langt og það nær og eins lengi og hann getur í þeirri von að kjósendur trúi því. Lægra er ekki hægt að leggjast hér á hinu háa Alþingi hæstvirtur forseti, og forseti lætur það viðgangast að hæstvirtur dómsmálaráðherra rægi þingmenn úr ræðustól Alþingis,“ sagði Þórunn. 

Guðbrandur Einarsson, þingmaður Viðreisnar, var einnig á meðal þeirra þingmanna sem tóku til máls og hann furðaði sig á því að ráðherra væri að saka „meðal annars mig um það að það sé verið að bera á okkur mútur fyrir að veita fólki ríkisborgararétt. Hvað er í gangi hérna,“ spurði Guðbrandur sem var sýnilega heitt í hamsi. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert