„Mikil mildi að ekki fór verr“

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Það er mikil mildi að ekki fór verr þó meiðsl hafi verið á fólki. Hættan er ekki liðin hjá þannig að við fylgjumst áfram með stöðunni. Þetta er auðvitað gríðarlega íþyngjandi fyrir íbúa sem hafa upplifað mikið óöryggi.“

Þetta segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra um stöðuna á Austfjörðum í kjölfar snjóflóða í Neskaupstað og umfangsmikilla rýminga þar og víðar á svæðinu.

Fylgjumst grannt með

„Það er ennþá óvissuástand. Við fylgdumst grannt með stöðunni í gær þar sem fram fór þessi gríðarlega umfangsmikla rýming. Ég var í sambandi bæði við bæjarstjórana í Fjarðabyggð og Múlaþingi þar sem fram einnig fór fram rýming á Seyðisfirði.

Við munum áfram vera í sambandi en akkúrat á þessu augnabliki er áfram óvissa. Við þurfum að leyfa þessu ástandi að klárast.“

Ofanflóðavarnir gríðarlega mikilvægar

Fulltrúar Náttúruhamfaratrygginga Íslands eru í Neskaupstað og verða til viðtals þar í dag.

Katrín segir Náttúruhamfaratryggingar hafa ákveðnu hlutverki að gegna en ofanflóðavarnir séu gríðarlega mikilvægar.

„Við settum aukið fjármagn í þau mál eftir flóðið á Flateyri hérna fyrir örfáum árum og höfum verið að flýta þeim verkefnum. Þetta minnir okkur enn og aftur á hversu brýn þau eru.“

Mun hitta sveitastjórnarfólk og íbúa

Forsætisráðherra hyggst fara austur.

„Já, ég mun fara og hitta sveitastjórnarfólk og íbúa og er að skoða með sveitarstjórum þar og öðrum hvenær rétti tíminn verður til þess,“ segir Katrín.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert