Líklegt að snjóflóðahætta verði fram á helgi

Spáin er ekki björt út vikuna og búast má við …
Spáin er ekki björt út vikuna og búast má við áframhaldandi snjóflóðahættu fram á helgi. Ljósmynd/Landsbjörg

Flóð féll yfir veg við gangamunnann Norðfjarðarmegin við Norðfjarðargöng í gær. Göngin hafa verið lokuð í frá því í gær vegna gildandi snjóflóðahættu. Veðurspá á svæðinu fer versnandi frá miðvikudegi og því ekki við að búast að raunum Norðfirðinga, Seyðfirðinga og Eskifirðinga sé lokið.

Ólíver Hilmarssonar, hjá snjóflóða- og skriðuvakt Veðurstofu Íslands. segir það ekki í fyrsta sinn sem að sem flóð falli við göngin, þrátt fyrir að lítill varnargarður sé við gangamunnann. Hann segir mikinn snjó allstaðar í kring en að unnið sé að því að opna vegi til að koma björgum á milli.

Spáin ekki björt

Ólíver segir hættuna ekki liðna hjá og bendir á að veðurspá á Austfjörðum í lok vikunnar sé ekki björt. Mjög mikilli úrkomu er spáð á fimmtudag og föstudag, sem geri snjóflóðahættuástand illt verra.

„Það má alveg búast við að það verði viðvarandi snjóflóðahætta fram á helgi,“ segir Ólíver og bætir við „Það er smá pása núna, í einn sólarhring kannski, áður en næsti hvellur kemur“.

Aðspurður hvort búist sé við snjóflóðahættu á fleiri stöðum á svæðinu, segir Ólíver að það sé eitthvað sem þurfi að skoða en að það velti allt á veðurspá næstu daga. Fari veður hlýnandi sé önnur ógn sem steðji mögulega að.

Vorflóð- og krapaflóðahætta

„Ef það verður hlýtt og mikil rigning þá gæti orðið votflóð- og krapaflóðhætta, en við þurfum bara aðeins að skoða spánna“

Krapaflóð er að sögn Ólívers einskonar vatnsblandað snjóflóð. Flóðin komi oft með lækjafarvegi og því séu það aðrir staðir sem geti verið í hættu.

Eins og er segir hann þó aðeins útlit fyrir snjókomu og hættustig sé því aðeins á þeim stöðum sem hefur verið greint frá, Eskifirði, Seyðisfirði og Neskaupstað.

Aðspurður hvort snjóflóðahætta sé víðar á landinu segir Ólíver ekki vera hættu í byggð annarstaðar. töluverð hætta sé til fjalla meðal annars á Tröllaskaga og norðanverðum Vestfjörðum og því vert að biðla til fjalla- og skíðafólks að fara með gát.

mbl.is