Þjófnaður, innbrot og akstur undir áhrifum fíkniefna

Ljósmynd/Lögreglan

Lögregla hafði þrisvar í dag afskipti af ökumönnum sem grunaðir voru um að keyra undir áhrifum fíkniefna. Allir reyndust vera sviptir ökuréttindum. Þetta kemur fram í dagbók lögreglu.

Lögreglumenn höfðu afskipti af aðila sem grunaður var um að selja fíkniefni. Sá grunaði reyndi að komast undan á hlaupum en var hlaupinn uppi af lögreglunni. Hann reyndist vera með fíkniefni sem ætluð voru til sölu og fjármuni sem að lögregla telur vera ágóða af fíkniefnasölu. Viðkomandi reyndist einnig vera hér í ólöglegri dvöl.

Þjófnaður á verkfærum

Tilkynnt var um þjófnað á verkfærum frá verktaka á vinnusvæði í hverfi 101. Þar að auki barst lögreglu tilkynning um innbrot og skemmdarverk í geymslu fjölbýlishúss í hverfi 105.

Lögreglu barst tilkynning um innbrot í bifreið sem að var staðsett í bílageymslu. Góðar öryggismyndavélar voru á vettvangi og telur lögregla sig vita hver var að verki.

Tilkynnt um aðila sem fór inn í ólæsta bifreið og stal úr henni verðmætum. Sá sem tilkynnti brotið fylgdi aðilanum eftir þar til að lögregla kom á vettvang. Sá grunaði reyndist vera með muni merkta eiganda bifreiðarinnar.

Tilkynnt var um þjófnað úr verslun í hverfi 103. Tveir meintir gerendur voru á vettvangi þegar að lögreglu bar að, sem reyndust vera undir lögaldri, málið var afgreitt með aðkomu foreldra.

Einnig var tilkynnt um þjófnað í hverfi 200 og lögregla afgreiddi málið á vettvangi.

Tilkynning barst einnig um þjófnað frá fyrirtæki í hverfi 110. Óprúttnir aðilar höfðu tekið verðmæti af athafnasvæði í skjóli nætur.

mbl.is