Þrír fluttir með sjúkraflugi eftir rútuslys

Tilkynning um slysið bars um klukkan 11 í morgun.
Tilkynning um slysið bars um klukkan 11 í morgun. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Rúta með 29 farþega innanborðs rann til í hálku og valt á hliðina í Öræfum rétt fyrir hádegi í dag. Sex voru fluttir af vettvangi með sjúkrabíl, þar af þrír til Hafnar í Hornafirði þaðan sem flogið verður með þá í sjúkraflugi til Reykjavíkur. Enginn hinna slösuðu er með lífshættulega áverka.

Þetta staðfestir Garðar Már Garðarsson, aðalvarðstjóri hjá lögreglunni á Suðurlandi, í samtali við mbl.is. tilkynningin um slysið barst um klukkan 11 fyrir hádegi.

Óskað var eftir aðstoð þyrlu Landhelgisgæslunnar vegna slyssins en hún var ekki til taks, að sögn Garðars. Það var þó ekki vegna alvarleika ákverkanna sem óskað var eftir þyrlunni heldur vegna flutningsvegalengda.

Farþegarnir með bak- og höfuðmeiðsli

„Í kjölfarið var óskað eftir sjúkraflugi og það eru þrír fluttir með sjúkrabíl til Hafnar í Hornafirði og þangað kemur sjúkraflug og sækir þá. Það er ekki vegna alvarlegra meiðsla, þetta eru bak og höfuðmeiðsli, heldur þetta snýst um vegalengdir í flutningi og því var óskað eftir flugi,“

Önnur rúta kom á vettvang og ekið var með farþegana sem eftir voru á Hótel Skaftafell þar sem bráðaflokkun og frekari skoðun fór fram.

Rútan sem valt er fyrir utan veginn og því ekki fyrir bílaumferð, en að sögn Garðars er verið að vinna í að fjarlæga hana af vettvangi. Ekki þurfti að loka veginum á neinum tímapunkti vegna slyssins.

mbl.is