Enn fellur snjóflóð í Neskaupstað

Enn falla snjóflóð við Neskaupstað.
Enn falla snjóflóð við Neskaupstað. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Lítið snjóflóð féll fyrir ofan Neskaupstað skömmu eftir hádegi. Flóðið var lítið og náði ekki að varnargarði. Björgunarsveitar- og fjölmiðlamenn voru fyrir innan rýmt svæði og sáu þeir flóðið falla. 

Uppfært klukkan 14.10:

Sveinn Brynjólfsson, sérfræðingur á sviði ofanflóðahættumats hjá Veðurstofu Íslands, segir að verið sé að meta flóðið og þær upplýsingar sem liggja fyrir. Hann segir ekki mikið skyggni á svæðinu.

Sveinn segir flóðið hafa komið niður úr sama gili og flóðið á mánudag, sem féll á innsta hluta varnargarðsins undir Drangagili og Skágili. Það hafi farið niður í 150 metra hæð yfir sjávarmáli og að varnarkeilunum sem eiga að tvístra flóðunum áður en þau lenda á varnargarðinum.

Merkir eðlisbreytingu

Hann merkir eðlisbreytingu á flóðinu í dag og fyrri flóðum. Snjórinn sé að þyngjast og að verða rakari á láglendi og ekki sé um sama kófið að ræða og var.

Sveinn segir flóðið vera léttara í sér og þykkra í tunguna og því ekki eins hraðfara.

„Fyrsta ályktun sem maður dregur af þessu flóði er að það sé óstöðugleiki þarna og að sá snjór hafi hlaupið niður sem kom í nótt og í morgun. Það er gott að fá flóðið niður strax úr þeim snjó sem er að koma,“ segir hann og heldur áfram.

„Flóðin á mánudag voru óvenjuleg að því leiti að þau voru efnislítil, kófkennd, hraðfara, ná þetta langt niður og höfðu þennan eyðileggingarmátt. Það er annað eðli á þessu flóði að minnsta kosti,“ segir Sveinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert