„Fólk er meðvitað um það veður sem er að koma“

Veðurspá á Austurlandi á næstu dögum er ekki björt, en hættustig er viðvarandi í Neskaupstað, Seyðisfirði og Eskifirði. Samkvæmt veðurspám er áætlað að bæti í veðrið fram á helgi og að snjóflóðahætta aukist í kjölfarið. Björgunarsveitafólk á svæðinu verður áfram í viðbragðsstöðu.

„Fólk er meðvitað um það veður sem er að koma,“ segir Jón Þór Víglundsson, upplýsingafulltrúi Slysavarnarfélagsins Landsbjargar. Hann segir að öðru leyti ekki vera aðrar ráðstafanir sem slíkar, sem ekki hafi nú þegar verið gripið til. 

Snjó hefur kyngt niður í Neskaupstað.
Snjó hefur kyngt niður í Neskaupstað. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Björgunarsveitarfólk er í viðbragðsaðstöðu í og nálægt Fjarðabyggð en mörg þeirra hafa verið flutt ásamt tækjabúnaði austur til að veita viðbragðsaðilum á staðnum liðsauka. Jón Þór segir stöðuna verða tekna þegar veðrið hefur gengið yfir um hvort björgunaraðilar geti snúið aftur heim. 

Norræna að leggja úr höfn

Á Fjarðaheiði eru björgunarsveitir nú að koma fólki til aðstoðar sem lagði á heiðina í morgun.

Ferjan Norræna áætlaði að leggja úr höfn á hádegi í dag og einhverjir þeirra sem nú eru í vandræðum á Fjarðaheiði áttu bókað far með henni. Þar er nú mikil ófærð og vegurinn lokaður samkvæmt upplýsingum af vef Vegagerðarinnar.

Spurður hvort björgunarsveitarfólk sé farið að þreyttast vegna viðvarandi ástands svarar Jón Þór ekki geta sagt nákvæmlega til um það en bætir við:

„Þetta fólk er ekkert öðruvísi en annað fólk, það verður lúið og þreytt ef álagið er mikið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert