Spurði Lilju út í nýtt hrun

Vel fór á með ráðherra og breska fréttahauknum Richard Quest, …
Vel fór á með ráðherra og breska fréttahauknum Richard Quest, fréttamanni CNN International, á A4E Aviation Summit í Brussel í gær og innti hann Lilju eftir mati hennar á ástandi fjármálamarkaða heimsins nú miðað við hrunið eftirminnilega fyrir réttum 15 árum nú í ár. Ljósmynd/Aðsend

„Við Richard Quest, fréttamaður CNN, áttum stuttan fund. Hann þekkti mjög vel til fjármálahrunsins á Íslandi árið 2008 og við áttum gott samtal um þær hræringar sem nú eru á alþjóðlegum fjármálamörkuðum,“ segir Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, sem nýkomin er heim af A4E Aviation Summit-ráðstefnunni sem haldin var í Brussel í Belgíu í vikunni.

A4E er árleg ráðstefna um flugsamgöngur í Evrópu og áhrif þeirra á ferðaþjónustu þótt samtal Quest og Lilju Daggar hafi í grundvallaratriðum vikið frá efni ráðstefnunnar. „Hann hafði áhuga á að vita um mat mitt á því hvort þetta væri jafn stórt kerfishrun alþjóðlegra fjármálamarkaða og gerðist vikuna eftir að bandaríski fjárfestingarbankinn Lehman Brothers féll og allt nötraði,“ segir Lilja.

Umskipti ekki hnökralaus

Kveðst hún þeirrar skoðunar að ástand fjármálamarkaða heimsins nú sé ekki af sama toga. „Þarna var búið að auka útlán alveg gríðarlega, samanber húsnæðisbóluna í Bandaríkjunum á þessum tíma, en eins og ég sagði við Quest þá er staðan þannig núna að við erum að fara úr þessu umhverfi lágrar verðbólgu og lágra vaxta og komin í umhverfi hárrar verðbólgu þar sem stýrivextir um víða veröld eru að hækka hratt,“ segir Lilja frá.

Við slík umskipti komi ýmsir hnökrar fram, svo sem við fjármögnun fjármálafyrirtækja, og bendir Lilja þar á hremmingar Silicon Valley-bankans og Credit Suisse-bankans. „Þá koma veikleikar víða í ljós, en uppruni krísunnar er annar. Hins vegar eru miklar hræringar engu að síður að eiga sér stað og líklegt að svokallað taumhald peningastefnunnar sé að aukast verulega, ekki bara gegnum hærri stýrivexti heldur er farið að þrengja að fjármögnun banka og þeir halda aftur að sér höndum. Fjárfestingastigið mun lækka hratt í kjölfarið. Sem eykur líkurnar á að við séum að fara að ná verðbólgunni niður,“ segir ráðherra.

Hvað með strauma og stefnur á flugmálaráðstefnunni?

„Hún var býsna góð. Það er greinilegt að skilningur á stöðu Íslands fer vaxandi. Menn sjá að flugleiðin er miklu lengri hingað norður í Atlantshafið en innan Evrópu og þessi skattur leggst á fluglengd svo það er augljóst að það er eitt ríki og svo Kanaríeyjar sem koma illa út úr því,“ segir Lilja og á við fyrirhugaða löggjöf Evrópusambandsins um losunarheimildir á flugferðir og skattlagningu í tengslum við kolefnislosun.

Tengiflugið er fjöreplið

Á ráðstefnunni hafi verið gefið til kynna að koma mætti til móts við legu Íslands landfræðilega en á þeim vettvangi þyrftu hlutirnir að fara að gerast á allra næstu mánuðum ef ekki vikum.

„Það kemur auðvitað fram í bréfi Ursulu von der Leyen [forseta framkvæmdastjórnar ESB] til forsætisráðherra að þetta mál sé gríðarmikilvægt. Fram hefur komið í samtölum síðustu daga að vegna þessa verði tekið tillit til hagsmuna ríkja þegar þeir eru svona þjóðhagslega mikilvægir. Við værum ekki með svona greiðar flugsamgöngur ef ekki væri fyrir tengiflugið, við gætum þá ekki haldið úti áætlunarflugi án þess að það væri niðurgreitt. Íslenskur flugiðnaður er sjálfbær meðan verið er að styrkja ýmsar flugleiðir um alla Evrópu af því að þær standa ekki undir sér,“ segir Lilja.

„Íslenskur flugiðnaður á sér viðskiptamódel sem hefur virkað í áratugi og eftir því er tekið,“ lýkur ráðherra máli sínu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert