Féð aflífað á Hvammstanga í dag

Féð verður flutt að sláturhúsinu á Hvammstanga og aflífað þar …
Féð verður flutt að sláturhúsinu á Hvammstanga og aflífað þar í dag og nær sú aðgerð líkast til yfir á morgundaginn einnig þar sem alls er um á áttunda hundrað fjár að ræða. mbl.is/Sigurður Bogi

„Aðgerðir eru hafnar, féð verður sótt á bæinn, flutt að sláturhúsinu á Hvammstanga, aflífað þar, sýni tekin og sett í lekahelda gáma,“ lýsir Sigurborg Daðadóttir yfirdýralæknir aðgerðum á Syðri-Urriðaá, nágrannabæ Bergsstaða í Vestur-Húnavatnssýslu þar sem riða kom upp í sauðfé fyrir páska.

Hræin verða svo að sögn yfirdýralæknis flutt á urðunarstað. Kveðst Sigurborg efins um að náist að aflífa allt féð í dag, 720 kindur, en auk þess þurfi að ná í tuttugu sem tengjast smitrakningu og verður það fé einnig aflífað.

„Svo tekur við hreinsun á bænum, víðtæk hreinsun á fjárhúsum og öllu því sem fé hefur komist í snertingu við, þar með töldum jarðvegi kringum fjárhús, fjarlægja þarf allt sem ekki er hægt að sótthreinsa,“ segir Sigurborg.

Að hreinsun lokinni taki endurbygging við, bærinn þurfi þó fyrst að standa fjárlaus í tvö ár en það tímabil greiðir ríkið rekstrarbætur. „Það fer í gegnum ráðuneytið, ekki Matvælastofnun,“ segir Sigurborg að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert