72 ára á toppi Hvannadalshnjúks

Katrín Theodórsdóttir, 72 ára göngugarpur, á toppi Hvannadalshnjúks ásamt dætrum …
Katrín Theodórsdóttir, 72 ára göngugarpur, á toppi Hvannadalshnjúks ásamt dætrum sínum. Ljósmynd/Aðsend

„Þetta er orðið eitt af vorverkunum hjá mér,“ segir Þórður Ingi Marelsson sem gekk upp á Hvannadalshnjúk ásamt 22 félögum úr ferðahópnum Fjallavinum á laugardag.

Þórður, sem sá um skipulagningu ferðarinnar, hefur oft gengið á hnjúkinn áður en segir tilfinninguna að komast á toppinn alltaf jafn stórkostlega.

Þórður Ingi Marelsson hjá Fjallavinum sá um að skipuleggja ferðina.
Þórður Ingi Marelsson hjá Fjallavinum sá um að skipuleggja ferðina. Ljósmynd/Aðsend

Undirbúningurinn hefst að hausti til

Undirbúningur fyrir göngu á Hvannadalshnjúk hefst yfirleitt að hausti til en þá setur ferðahópurinn í loftið verkefni sem ber yfirskriftina Esjan að hausti. Eftir áramót tekur við verkefni sem stendur fram í júní en þeir sem skrá sig í ferð á Hvannadalshnjúk vilja flestir klára þessi undirbúningsverkefni áður, enda mælst til þess að fólk sé orðið vant því að ganga á fjöll og sé í fínu líkamlegu ástandi.

Hópurinn gekk í gengum skýjakraga í 1.200-1.700 metra hæð.
Hópurinn gekk í gengum skýjakraga í 1.200-1.700 metra hæð.

Toppurinn er svo að fara á hnjúkinn að vori til en flestir sem skella sér með í ferðina eru búnir að gæla við það lengi að láta þann draum rætast.

Hópurinn kominn skýjum ofar.
Hópurinn kominn skýjum ofar. Ljósmynd/Aðsend

Ekkert aldurstakmark

Fjallavinir settu síðastliðið haust saman hópinn Hvannadalshnjúkur 70 ára en Þórður segir aldurshópinn upp úr sjötugu alveg gríðarlega öflugan og flottan, bæði líkamlega og andlega.

Með stofnun hópsins vildu Fjallavinir senda út þau skilaboð að fólk á þessum aldri gæti slegist í för með þeim. Ekkert varð þó úr ferðinni en hins vegar var elsti göngugarpur helgarinnar Katrín Theodórsdóttir, 72 ára. Hún gekk upp á topp ásamt dætrum sínum og segir Þórður hana góða og mikla fyrirmynd.

„Það var ótrúlega skemmtilegt að fylgjast með henni og hennar föruneyti enda er hreyfing af hinu góða fyrir líkamlegu og andlegu hliðina.“

Það er ekkert aldurstakmark á Hvannadalshnjúk.
Það er ekkert aldurstakmark á Hvannadalshnjúk.

Ólýsanleg tilfinning

Að sögn Þórðar gekk allt eins og í sögu. Göngugarparnir héldu góðum takti upp Sandfellsleiðina, en þá var enn þungbúið, þótt spár höfðu gert ráð fyrir heiðskíru allan daginn.

„Það verður að viðurkennast að dagurinn leit sannarlega ekki út fyrir að verða bjartur, en eftir því sem ofar dró létti til og eins og oft áður var gengið upp úr skýjabakkanum og dýrðin ein blasti við. Heiður himinn og sólin skein á jökulinn.“

Afmælisbarnið, Ásta Rós Magnúsdóttir, hélt upp á afmælið sitt á …
Afmælisbarnið, Ásta Rós Magnúsdóttir, hélt upp á afmælið sitt á toppnum. Ljósmynd/Aðsend

Hann segir að dýrðinni verði varla lýst með orðum. Hnjúkurinn hafi blasað við heiðbláan himinninn eins tignarlegur og hann geti orðið og stemningin í hópnum hafi verið góð. 

„Eftir langa og krefjandi göngu sem tók 14 klukkustundir upp í 2.110 m hæð var tilfinningin og gleðin meðal gönguhópsins engri lík. Það var meira að segja afmælisbarn í hópnum sem fagnaði deginum á toppnum,“ segir Þórður hlæjandi í samtali við blaðamann mbl.is.

Þeir sem gerðu þessa göngu mögulega, fyrir utan veðurguðina, voru þeir Þórður og Sigurbjörn ásamt traustum jöklafararstjórum að austan, þeim félögum Laurent, Stephan, Kish og Rich, en gangan var samstarfsverkefni Fjallavina og Iceguides. 

Á toppnum tók við sólskin og tilkomumikið útsýni til allra …
Á toppnum tók við sólskin og tilkomumikið útsýni til allra átta. Ljósmynd/Jón Grétar Sigurðsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert