Átökin bitna einungis á hinum almenna félagsmanni

Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambandsins (SGS), og Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður …
Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambandsins (SGS), og Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar. Samsett mynd

„Þetta eru viðbrögð sem koma mér ekkert á óvart vegna þess að það hefur verið talað með þessum hætti á liðnum vikum. Þannig að þetta lá nokkurn veginn fyrir,“ segir Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambandsins (SGS), í samtali við mbl.is um fyrirhugaða úrsögn Eflingar úr SGS. 

Á félagsfundi Eflingar í gær var samþykkt að allsherjaratkvæðagreiðsla yrði boðuð um úrsögn félagsins úr SGS. Sagði Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, í kjölfarið að hugsmunum Eflingar sé bet­ur komið utan SGS.

Vilhjálmur segir það vera umhugsunarvert að „fólk sem talar um samstöðu skuli stuðla að því að rjúfa samstöðu.“

Hann nefnir að landsbyggðarfélögin séu með 42 þúsund félagsmenn á bakvið sig á meðan að Efling hafi um 28 þúsund. „Þannig að við erum ennþá töluvert stærri heldur en Efling.“

Við sinntum okkar frumskyldu

Vilhjálmur segir það sem honum finnist vera undarlegast í málinu sé að forsendan fyrir útgöngu Eflingar virðist vera kjarasamningur SGS sem var undirritaður í desember. 

„Við sinntum okkar frumskyldu. Kjarasamningurinn skilaði okkar félagsmönnum 11,28% launahækkun, krónutölu sem að nam allt að 70 þúsund krónum á mánuði og kjarasamningi sem tók við af þeim eldri sem aldrei hefur gerst áður. Þetta hefur formaður Eflingar gagnrýnt harðlega,“ segir hann og nefnir að síðan hafi Efling samþykkt miðlunartillögu sem svipar til samnings SGS. 

„Ég verð nú að segja að mér finnst þetta afskaplega undarleg ákvörðun.“

Stjórn Eflingar ekki mætt á fundi

Spurður hvort hann hafi verið í sambandi við stjórn Eflingar eftir atkvæðagreiðslu gærdagsins svarar Vilhjálmur neitandi. 

„Við erum búin að halda nærri átta fundi frá því að kjarasamningar voru undirritaðir á hinum almenna vinnumarkaði hjá Starfsgreinasambandinu. Efling hefur alltaf fengið fundarboð á alla fundi en hefur ekki mætt á einn einasta. Ekki einu sinni til þess að taka „debat“ um það sem að þau vildu gagnrýna heldur fer gagnrýnin fram á lyklaborðinu,“ segir hann og bætir við að ekki sé hægt að draga formann Eflingar á fundina. 

Greiða ekki meira en önnur félög

Vilhjálmur segist furða sig á ummælum Sólveigar Önnu að Efling fái lítið út úr því að vera aðildarfélag SGS. 

Hann bendir á að fyrir helgi skrifaði sambandið undir kjarasamning við Landsvirkjun. Félagsmenn Eflingar eiga aðild að þeim samningi. 

Þá bendir Vilhjálmur á að Efling greiði ekki meira en önnur félög til sambandsins.

„Það eru öll aðildarfélög Starfsgreinasambandsins að greiða sömu prósentutölu af hverjum félagsmanni. Þau eru ekkert að borga meira heldur en aðrir hlutfallslega.“ 

Afstaðan til ASÍ breyst

Þá undrast Vilhjálmur einnig á að rúmir sex mánuðir eru síðan að Sólveig Anna tjáði fjölmiðlum efasemdir sínar þess efnis að Efling ætti ekki heima innan raða Alþýðusambandsins (ASÍ).

Nú sé afstaða Sólveigar hins vegar sú að eðli­leg­ast og rétt­ast væri að Efl­ing sé ein­fald­lega með beina aðild að ASÍ.

Spurður hvort hann búist við hörðum átökum í komandi kjaraviðræðum, en samningar verða lausir í byrjun næsta árs, segist Vilhjálmur ekki geta sagt til um það.

„Auðvitað eru þessar uppákomur í verkalýðshreyfingunni sem að Efling stendur núna fyrir ekki í þágu hins almenna launamanns, svo mikið er víst. Þetta á endanum bitnar ekki á neinum öðrum heldur en hinum almenna félagsmanni.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert