Börn þekkja í flestum tilfellum gerandann

Meira en helmingur barna sem verða fyrir kynferðisofbeldi eru yngri …
Meira en helmingur barna sem verða fyrir kynferðisofbeldi eru yngri en 12 ára. Myndin er sviðsett. mbl.is/ Eggert Jóhannesson

„Um 90% barna sem verða fyrir kynferðisofbeldi þekkja þann sem beitir þau ofbeldi,“ er haft eftir Guðrúnu Helgu Bjarnadóttur, verkefnastjóra Verndara barna hjá Barnaheillum – Save the Children á Íslandi, í tilkynningu. 

Í dag hófst hin árlega vorsöfnun Barnaheilla sem er til stuðnings Verndurum barna, sem er forvarnaverkefni samtakanna gegn kynferðisofbeldi á börnum. 

„Börn reyna oft að segja ítrekað frá áður en þeim er trúað. Þess vegna þurfa fullorðnir að þekkja þessi merki eða vísbendingar sem börnin senda frá sér.“

Guðrún Helga Bjarnadóttir, verkefnastjóri innlendra verkefna hjá Barnaheillum.
Guðrún Helga Bjarnadóttir, verkefnastjóri innlendra verkefna hjá Barnaheillum. Ljósmynd/Aðsend

Þurfum að grípa inn í strax

„Staðreyndirnar tala sínu máli en ein af hverjum þremur stúlkum verður fyrir kynferðisofbeldi fyrir 18 ára aldur og þar af meira en helmingur þeirra fyrir 12 ára aldur. Til að vinna gegn þessu kennum við fullorðnum einstaklingum nokkrar leiðir til að koma auga á vísbendingar í hegðun, bæði á meðal barna og fullorðinna, til að grípa inn í áður en ofbeldi á sér stað,“ er haft eftir Guðrúnu Helgu.

„Við getum gert svo miklu meira en við höldum til að koma í veg fyrir ofbeldi en við þurfum að hafa forsendur til þess.“

Vorsöfnunin mun standa yfir til 7. maí en seldar verða lyklakippur um land allt til stuðnings forvörnum gegn kynferðisofbeldi á börnum. 

mbl.is