Skilja ekki af hverju deilan er komin á þennan stað

Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB.
Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB.

Fund­i samninganefnda BSRB og Sam­bands ís­lenskra sveit­ar­fé­laga er lokið án árangurs. Stóðu viðræðurnar yfir í um tvær klukkustundir og lauk um hádegisbilið.

Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB, ræddi við mbl.is að loknum kjaraviðræðunum.

„Ég hafði þær vonir að sveitarfélögin væru búin að skoða málið í ljósi afgerandi niðurstöðu hjá okkar félagsfólki um verkfallsaðgerðir. En við upplifum að það sé ekki mikill samningsvilji af hálfu sambandsins,“ segir hún.

Boðaði ekki til annars fundar

Þær aðgerðir hefjast að óbreyttu þann 15. maí.

„Það veltur svolítið á því hvort sambandið ætli að bregðast við þessum ólíku aðstæðum sem valda þessu misrétti, hjá okkar félagsmannahópi, gagnvart fólki sem er í sambærilegum eða sömu störfum,“ segir Sonja.

„Niðurstaða þessa fundar varð til þess að sáttasemjari ákvað ekki að boða til annars fundar. Þannig það kannski sýnir hversu langt er á milli samningsaðila.“

Sonja bætir við að samninganefnd BSRB hafi orðið þess áskynja að nefnd sambandsins sé ekki með umboð til neinna viðræðna.

„Það má benda á það að í síðustu kjaraviðræðum hafi meðal annars formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga tekið þátt í viðræðunum, þegar það var hörð kjaradeila og yfirvofandi verkfallsaðgerðir.“

Nú taki formaðurinn aftur á móti ekki þátt.

Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB, og Heiða Björg Hilmisdóttir, formaður …
Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB, og Heiða Björg Hilmisdóttir, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga. Samsett mynd

Fleiri gætu lagt niður störf

„Það sem við horfum til, er að við heyrum það mjög skýrt frá okkar félagsfólki, og jafnvel stjórnendum þess innan sveitarfélaganna, að það skilji ekki af hverju deilan sé komin á þennan stað. Það sé mjög auðvelt mál að leiðrétta þetta misrétti,“ segir Sonja.

„Þess vegna veltum við aðeins fyrir okkur, hver afstaða sveitarfélaganna er. Þannig að við köllum svolítið eftir þeirra mati á stöðunni og hvort þau vilji hafa þetta með þessum hætti, að fólkið þeirra upplifi misrétti og vanvirðingu við störfin sín.“

Sonja nefnir að í gangi séu atkvæðagreiðslur, um það að fleiri félög innan BSRB leggi niður störf. Þær aðgerðir myndu hefjast þann 22. maí. Þeim atkvæðagreiðslum lýkur á fimmtudag.

Um er að ræða fjögur stéttarfélög sem innihalda starfsmenn Reykjanesbæjar, Hafnarfjarðar, Ölfuss, Árborgar, Hveragerðis og Vestmannaeyja.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert