Jöklaferðum aflýst vegna jarðskjálftavirkni

Ferðamenn á gangi við Mýrdalsjökul.
Ferðamenn á gangi við Mýrdalsjökul. mbl.is/Jónas Erlendsson

Íslenska ferðaþjónustufyrirtækið Arctic Adventures hefur aflýst jöklaferðum sínum í Kötlu íshellinn það sem eftir lifir dags vegna jarðskjálftahrinunnar í Mýrdalsjökli í morgun.

„Samkvæmt öryggisreglum hjá okkur erum við ekki með meira í dag. Svo er staðan alltaf tekin og aðilar eru í góðu samtali við Veðurstofuna um framhaldið,” segir Gréta María Grétarsdóttir, forstjóri Arctic Adventures, spurð út í stöðu mála vegna hrinunnar.

Hún segir vinsældir íshellisins vera afar miklar og að straumurinn þangað hafi aukist statt og stöðugt.

Að minnsta kosti þrjú ferðaþjónustufyrirtæki eru með daglegar brottfarir í Kötlu íshelli, auk þess sem margir til viðbótar koma þangað með hópa. Einhver hundruð ferðamanna fara þangað á hverjum degi, segir Gréta María, aðspurð.

Arctic Adventures fer þangað tvisvar til þrisvar sinnum á dag að jafnaði en breytilegt er hversu margir fara í hvert sinn. Fyrirtækið var búið að fara eina ferð í íshellinn í morgun þegar tilkynningin barst frá Veðurstofunni í morgun um skjálftahrinuna.

Gréta María ítrekar að öryggisáætlanir fyrirtækisins séu yfirgripsmiklar og að það hafi öryggi viðskiptavina sinna ávallt efst í huga.

Uppfært kl. 15.45:

Fyrirtækið Glacier Encounter hefur aflýst jökulgöngum í dag á Sólheimajökli vegna öryggissjónamiða í tengslum við skjálftana í Mýrdalsjökli. Staðan verður tekin aftur í fyrramálið, að því er kemur fram í tilkynningu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert