Landspítalinn býr sig undir stórar árásir

Í mörg horn er að líta í undirbúningi fyrir leiðtogafund …
Í mörg horn er að líta í undirbúningi fyrir leiðtogafund Evrópuráðsins 16. og 17. maí. mbl.is/Jón Pétur

Sprengingar, stórar skotárásir og eiturefnaárásir eru á meðal þess sem starfsfólk bráðamóttöku Landspítala bjó sig undir á stórri æfingu í gær í tengslum við leiðtogafund Evrópuráðsins sem fram fer 16. og 17. maí.

Már Kristjánsson, fram­kvæmda­stjóri lyflækn­inga- og bráðaþjón­ustu, segir undirbúninginn þó helst felast í því að tryggja að vaktir séu mannaðar, starfsfólk komist vandkvæðalaust til og frá vinnu vegna gatnalokana og til að dusta rykið af verkferlum sem minna eru notaðir.

Það er í mörg horn að líta þegar búa þarf spítalann undir það að 40 þjóðarleiðtogar komi, ásamt fjölmennu fylgdarliði, til landsins.

„Það sem við erum helst að búa okkur undir eru skyndileg veikindi og svo óvæntir atburðir. Það eru sérstakir þættir í þessu sem geta haft áhrif á starfsemi spítalans,“ segir Már í samtali við mbl.is. 

Búa sig undir það versta

„Þetta er viðburður sem mun krefjast þess að opinberar stofnanir og viðbragðsaðilar sýni tillit. Samskiptaleiðir þurfa að vera greiðar svo við getum unnið okkar vinnu. Þetta er frávik frá daglegum boðleiðum fólks,“ segir Már.

„Við erum að setja okkur í stellingar fyrir það versta sem gæti komið fyrir. Það felur í sér að við tölum saman og höfum þá farið í gegnum það, þ.e. viðbragðsáætlanir spítalans og viðbragðsáætlanir almannavarna. Við höfum hvatt til þess að starfsfólk einstakra starfseininga spítalans standi klárt á sínu hlutverki.“

Már Kristjánsson, fram­kvæmda­stjóri lyflækn­inga- og bráðaþjón­ustu.
Már Kristjánsson, fram­kvæmda­stjóri lyflækn­inga- og bráðaþjón­ustu. mbl.is/Ásdís

Frakklandsforseti fer ekki aftast í röðina

Hann segir síðustu daga hafa farið í að kanna hverjir verða á vakt og hvernig bregðast eigi við skyndilegum veikindum á borð við heilablóðfall eða kransæðastíflu. 

Már segir að ef háttsettur ráðamaður lendi í skyndilegum veikindum sé að mörgu að hyggja. 

„Margir eru með læknisfræðilegan ráðgjafa, en þeir ferðast ekki með allt, eins og til dæmis brjóstholsskurðlækni. Eins og, ef ég tek dæmi, að einhver fái kransæðastíflu, þá er ekki læknir úr þeirra hópi sem fer að vinna á vettvangi. Þá er það okkar fólk sem vinnur á vettvangi eins og venjulega,“ segir Már. 

„Við erum að æfa þetta, setja okkur ferla og dusta rykið af ferlum sem eiga ávallt að vera í gangi. En af því að þetta eru forseti Frakklands, kanslari Þýskalands, þá er ekki hægt að setja þetta fólk aftast í biðröðina. Það er ekki gert. Við þurfum að tryggja að það sé þjónustuframboð,“ segir Már. 

Þannig séu vaktir vel mannaðar og tryggt að fólk sé á bakvöktum sem hægt er að hringja inn ef skyndileg veikindi koma upp hjá leiðtoga, eða ef stór atburður verður. 

Æfðu viðbragð við eiturefnaárás

„Við erum í raun að hugsa í gegn allt sem getur gert. Æfingin í gær tók til eiturefnaárásar. Eiturefnaárásir eru ekki eitthvað sem við erum vön og fannst ástæða til að æfa.“

Már segir slíka æfingu vera flókna. 

„Það þarf að afeitra fólk á staðnum, ef það er eitthvað sem er utan á fólki eða í andrúmsloftinu. Það er reynt að gera það á vettvangi. Við þurftum að æfa að setja upp afeitrunartjöld í Fossvogi. Þar kemur fólk inn, afklæðist, fer í sturtu, fær föt til að klæða sig í. Síðan fer fram mat og rannsóknir. Það fer allt eftir eðli eitrunarinnar.“

Hann segir starfsfólk líka þurfa að æfa að fara í hlífðarbúnað. Einnig þurfi að huga að því ef eitrun er, þá megi vatnið sem notað er til að hreinsa ekki fara út í holræsakerfið.

Bæta birgðastöðu í blóðbankanum

Víkur þá samtalinu að blóði og birgðastöðu. Spurður hvort þjóðarleiðtogar Evrópu ferðist með blóð með sér eins og breska konungsfjölskyldan segir Már svo ekki vera. Það sé þó allt baktryggt hjá blóðbankanum hér á Íslandi. 

„Öryggisbirgðir rauðkorna eru 400 einingar, en við erum að keyra þetta núna upp í 550 til 600 einingar. Það er alltaf mikið flæði í gegn. Jafnvel þó það komi einn eða tveir erum við vel innan marka. Ef það yrði meiriháttar skotárás og tugir manna sem þyrftu mikið af blóði á skömmum tíma þá myndum við ganga nærri öryggisbirgðum okkar. En þá fer ákveðið viðbragð í gang. En við getum ekki stillt því upp fyrirfram, það er bara öryggisáætlun,“ segir Már. 

Már segir líka að ef stór sprenging yrði, eða meiriháttar atburður, þá sé Ísland í Svalbarðshópnum svonefnda ásamt Norðurlandaríkjunum. 

„Þegar það verður svakaleg uppákoma á einu svæði þá bregðast menn við með hjálp. Ef við stæðum frammi fyrir því að vera með mikil brunasár hjá mörgum einstaklingum þá erum við ekki sjálfbjarga í marga daga með það. En á einum til tveimur sólahringum getum við flutt á brunamiðstöðvar á öðrum Norðurlöndum. Við höfum bara takmarkaða getu,“ segir Már. 

Hann segir það sama gilda um flest sem getur komið upp á, til dæmis er aðeins ákveðinn fjöldi af öndunarvélum á landinu. „Það geta ekki tugir manna verið á öndunarvél á sama tíma.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert