Fyllt upp í holuna vegna niðurskurðar

Selirnir í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum munu þurfa að bíða í …
Selirnir í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum munu þurfa að bíða í óákveðinn tíma eftir nýrri og bættri laug. ValgardurGislason

Framkvæmdum við stækkun selalaugar í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum sem hófust haustið 2022 hefur verið frestað um óákveðinn tíma. Deildarstjóri garðsins segir málið bagalegt en ákvörðunin sé hluti af niðurskurðaraðgerðum borgarinnar.

Reykjavíkurborg hefur ráðist í margvíslegar hagræðingaraðgerðir til að sporna við bágri fjárhagsstöðu en meðal þeirra eru lokun borgarskjalsafns og skertir afgreiðslutímar sundlauga á frídögum.

Framkvæmdum átti að ljúka í fyrra

Fyrirætlanir um nýja selalaug voru kynntar í maí 2022 og yfirlýst markmið hennar var að bæta velferð selanna og auka það dýpi sem þeir gætu kafað á.

Áætlanir gerðu ráð fyrir því að þjónustuhús yrði reist sem átti að vera búið nauðsynlegri inniaðstöðu til almennrar umhirðu og aðhlynningar dýra. Stórir gluggar yrðu neðan vatnsborðs sem myndu gefa gestum tækifæri til að sjá selina með nýjum hætti.

Gert var ráð fyrir því að framkvæmdir myndu hefjast um mitt síðasta ár og að þær myndu klárast undir lok þess, eða í nóvember.

Fyllt upp í grafna holu

Þorkell Heiðarsson, deildarstjóri Fjölskyldu- og húsdýragarðsins, segist litlar upplýsingar hafa um málið í samtali við mbl.is. Honum þykir málið bagalegt og segir að nú verði aftur fyllt upp í þá holu sem hafði verið grafin upp til að vinna jarðvinnu fyrir stærri laug.

Gestum garðsins er greint frá frestuninni á plöstuðu blaði dagsett 9. maí þar sem gert var ráð fyrir lauginni. Á því segir að unnið verði að því að koma framkvæmdasvæðinu í samt horf í þessum mánuði.

Skiltið sem blasir við gestum nálægt selalauginni.
Skiltið sem blasir við gestum nálægt selalauginni. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert