NoName057 lýsir yfir ábyrgð á netárásunum

Fyrir utan Hörpu í morgun.
Fyrir utan Hörpu í morgun. mbl.is/Andrés

Gunnar Hörður Garðarsson, upplýsingafulltrúi ríkislögreglustjóra, segir í samtali við mbl.is að fyrirséð hafi verið að netárásir yrðu gerðar á íslenskar vefsíður í kringum leiðtogafund Evrópuráðsins sem hefst í Hörpu í dag. 

„Þetta er allt í höndum,“ segir Gunnar en árásir voru gerðar á fjölda vefsíðna rétt eftir klukkan níu í morgun. 

Nokkrar vefsíður eru komnar aftur upp og annað er í vinnslu, þar á meðal er vefur Alþingis.  

Gunnar segir að um sé að ræða svo­kallaðar álags­árás­ir (DDOS), „sem við fyrirsáum að yrði eitthvað af“. Þá er mik­illi um­ferð beint að vef í þeim til­gangi að lama kerf­in og gera óvirk til skamms tíma, án þess þó að þrjót­arn­ir kom­ist yfir gögn eða skemmi kerfi.

Hann nefnir að netöryggissveitir CERT-IS vinni að málinu með ríkislögreglustjóra. 

Er vitað hverjir standa að baki þessara árása?

„Mér skilst að það séu einhverjar ákveðnar vísbendingar en ekkert staðfest ennþá.“

Uppfært 11:10 

Í tilkynningu á vef CERT-IS kemur fram að ógnarhópurinn NoName057 hefur lýst yfir ábyrgð á árásunum. Hópurinn er rússneskur og leit fyrst dagsins ljós í mars árið 2022. 

„Dreifðum álagsárásum (DDoS attack) var beint gegn einstaka vefsíðum og hýsingaraðilum sem gerði það að verkum að margar vefsíður lágu tímabundið niðri. Viðbragðsaðilar hafa unnið að því að koma vefsíðum upp og eflt varnir sínar.“

Þá segir að innbrotstilraunir (intrusion) í kerfi hafa verið gerðar í kjölfar dreifðra álagsárása. Ekki er útilokað fleiri árásir verða gerðar á íslenska netumdæmið og hvetur CERT-IS rekstar- og öryggisstjóra að vera á varðbergi og tilkynna allt grunsamlegt á cert@cert.is.  

Allt gengið smurt fyrir sig 

Spurður hvernig aðdragandi leiðtogafundarins hefur gengið síðustu daga segir Gunnar að allt hafi gengið smurt fyrir sig, fyrir utan netárásirnar, sem voru líkt og áður sagði fyrirséðar að sögn Gunnars. 

„Þetta er búið að ganga bara mjög vel. Lokanirnar eru komnar upp. Fylgdirnar byrjaðar að streyma til landsins.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert