Stór fundur – lítil umfjöllun

Mikið hefur verið fjallað um fundinn í íslenskum fjölmiðlum.
Mikið hefur verið fjallað um fundinn í íslenskum fjölmiðlum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Leiðtogafundur Evrópuráðsins hefur vart farið fram hjá landsmönnum og þá einna helst höfuðborgarbúum. Götum var lokað og vopnaðir lögregluþjónar hafa þrammað um miðborgina sem hefur ekki litið jafn tómleg út síðan á tímum ferða- og samkomutakmarkana. Fjölmiðlar tala varla um annað, eða að minnsta kosti þeir íslensku. 

Sögulegt samhengi fundarins er tíðrætt, enda er hægt að telja fjölda leiðtogafunda Evrópuráðsins á fingrum annarrar handar. Aðal umræðuefni fundarins er innrás Rússa í Úkraínu og leiðtogar koma víða að til að ræða við kollega sína, fá sér pulsu og skoða Þingvelli.

Tilurð tjónaskrárinnar er í hávegum höfð en mikill meirihluti ríkja Evrópuráðsins hefur undirritað stofnskjöl hennar. Þá hafa hinir ýmsu leiðtogar snert á málum sem mikið eru í deiglunni í heimalandi þeirra og fjölmargir tvíhliða fundir haldnir. 

Lítið að finna á forsíðum

Þrátt fyrir þetta virðast fjölmiðlar Evrópu takmarkaðan áhuga hafa á fundinum. Ef litið er á forsíður stærri miðla víða um Evrópu er litla umfjöllun um fundinn að finna. Sé hans getið er það í einhverjum tilfellum einungis vegna þess að blaðamenn þess lands náðu þar tali af eigin þjóðarleiðtoga. Dæmi um slíkt má sjá í þessari umfjöllun DR.

Í öðrum tilfellum má sjá greinar um orð Ursulu von der Leyen, formanns framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, í sér flokkum um málefni Úkraínu. Í tilfelli Guardian má sjá orð von der Leyen á forsíðunni undir slíkum flokki en greinin sjálf er þó tæplega sólarhrings gömul.

Sömuleiðis er aðeins eina grein að finna frá því í dag um innihald leiðtogafundarins á fréttaveitu AFP sé leitað að greinum sem að nefna Ísland.  

Frekari ávinningur ljós síðar?

Af léttri yfirferð að dæma mætti áætla að heimspressan hafi lítinn áhuga á fundinum og sömuleiðis staðsetningu hans. 

Ávextir fundarins munu margir hverjir mögulega ekki líta dagsins ljós alveg strax en samstaða leiðtoga Evrópu hvað varðar málefni Úkraínu verður vafalaust dýrmæt fyrir framhaldið. Ef það er raunin mætti kannski spyrja að því hvort að umfjöllunin og umstangið hafi ekki reynst þess virði, sama hvort fjölmiðlar annarra landa séu að fylgjast með eða ekki. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert