Stendur ekki til að selja löggæslubúnaðinn

Íslenska lögreglan fyrir utan Hörpu í síðustu viku.
Íslenska lögreglan fyrir utan Hörpu í síðustu viku. AFP/John Macdougall

Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra sagði í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag að ekki stæði til að selja neitt af þeim löggæslubúnaði sem var keyptur fyrir leiðtogafund Evrópuráðsins. 

Tilefnið var spurning Arndísar Önnu Kristínardóttur Gunnarsdóttur, þingmanns Pírata. 

Hún benti á að óljóst er hver heildarkostnaður ríkisins var af fundinum, „en tölum hefur verið fleygt allt upp í 4 milljarða. Fram hefur komið að öryggisgæsla hafi verið stærsti kostnaðarliðurinn vegna fundarins.“

Þá sagði hún að fram hafi komið í fréttum að fest hafi verið kaup á á miklu magni af skotvopnum í aðdraganda fundarins, og þar á meðal hundruðum sjálfvirkra byssa sem lögreglumenn báru. 

Þær spurningar hafa í kjölfarið vaknað hvað skuli svo eiginlega að gera við þessi vopn, hvort lögreglan hyggist eiga þau áfram eða selja þau,“ sagði Arndís. 

Hafði ekki tölur

Jón sagði að búnaðarkaupin hafi verið fjölbreytt, og nefndi til dæmis varnarbúnað, skotvopn og mótorhjól. Hann sagðist ekki hafa tölur yfir kostnaðinn. 

Það sem eftir stendur, eftir þennan fund, virðulegur forseti, er að okkar lögreglumenn, okkar lögreglufólk, alls staðar að af landinu, búa yfir betri menntun, gríðarlega mikilli þjálfun og auknum búnaði af mörgu tagi,“ sagði hann. 

Þá sagði Jón að búnaðurinn verði nýttur í framtíðinni. 

Ekki rætt í ríkisstjórn 

Arndís spurði þá hvort þessi stóraukning á vígbúnaði lögreglunnar hafi verið rædd í ríkisstjórn. 

Jón svaraði að hvorki hafi verið farið sérstaklega yfir búnaðarkaupin í ríkisstjórn né dómsmálaráðuneytinu. 

Það var auðvitað sérstök rekstraráætlun gerð fyrir fundinn og þær tölur sem ég hef heyrt nefndar eru í kringum tvo milljarðar, sem kostnaðurinn við þennan fund. Hluti af því voru þessi búnaðarkaup,“ sagði hann. 

mbl.is