Eldur kviknaði í Heimabakaríi á Húsavík

Ekkert verður bakað í Heimabakaríi í bráð.
Ekkert verður bakað í Heimabakaríi í bráð. mbl.is/Hafþór Hreiðarsson

Eldur kviknaði í húsnæði Heimabakarís á Húsavík fyrr í kvöld. Engan sakaði og burðarvirki hússins er talið í lagi en ekkert verður þó bakað í húsinu næstu daga.

Útkall vegna eldsins barst slökkviliði Norðurþings klukkan 20.43 og var lokið við að slökkva eldinn um klukkan 20.55. Allt slökkvilið, eða fjórir bílar og sautján slökkviliðsmenn voru kallaðir á vettvang.

Þetta staðfestir Grímur Kárason slökkviliðsstjóri í samtali við mbl.is.

Ekkert bakað næstu daga

Þó að stuttan tíma hafi tekið slökkviliðið að ráða niðurlögum eldsins segir Grímur tjónið mikið.

„Það verður ekki bakað hér næstu daga í það minnsta.“

Grímur segir engan hafa verið í húsinu þegar eldurinn kviknaði en bakarinn hafi verið þar nokkru áður að undirbúa nóttina og bakstur morgundagsins.

Allir fjórir bílar slökkviliðsins voru kallaðir út.
Allir fjórir bílar slökkviliðsins voru kallaðir út. mbl.is/Hafþór Hreiðarsson

Reykkafarar sendir inn

Ekkert er vitað um upptök eldsins að svo stöddu en vettvangurinn verður afhentur lögreglu bráðlega.

„Húsið var bara alveg toppað af reyk þegar við komum að þessu og það fóru reykkafarar inn og slökktu þetta. Það gekk svo sem bara mjög vel að slökkva þegar við komumst að eldinum, hann var svona í miðju rýminu hérna þannig það var svolítil leið að þessu. Það gekk allt bara eins vel og hugsast gat í raun,“ segir Grímur.

Ekkert sé að burðarvirki hússins, mest sé um reyk- og sótskemmdir. Íbúðarhúsnæði er á efri hæð hússins.

„Einhverjar svona skemmdir á raflögnum og slíku en húsið sem slíkt er alveg ólaskað þannig lagað,“ segir Grímur að lokum.

mbl.is