Engin nýsköpun án hins opinbera

Reykjavíkurborg hélt málþing um nýsköpun á fimmtudaginn.
Reykjavíkurborg hélt málþing um nýsköpun á fimmtudaginn. Ljósmynd/Róbert Reynisson

Arnar Sigurðsson, stofnandi sprotafyrirtækisins Austan mána, segir það mýtu að verðmæti séu ekki sköpuð hjá hinu opinbera og að Reykjavíkurborg ætti ekki að veigra sér við að stofna fyrirtæki.

Borgarbúar megi gera ráð fyrir þjónustu sem kallast „fjarvöktun“ á næstu árum og að heilbrigðisstarfsmenn muni geta þjónustað allt að tífalt fleiri sjúklinga. Mikil vinna hefur verið lögð í stafrænar lausnir og heimsóknir í þjónustuver borgarinnar hafa helmingast síðan í desember.

Þetta er meðal þess sem kom fram á málþingi borgarinnar um nýsköpun, en málþingið var hluti af nýsköpunarvikunni.

Hið opinbera í hávegum höfð

„Opinberir starfsmenn eru verðmætaskapandi og þess vegna þurfum við að fjárfesta í nýsköpun. Þannig að hið opinbera sé ekki bara að nýta verðmæti heldur líka að skapa þau. Til þess að þau geti verið verðmætaskapandi þá þarf að gefa opinberum starfsmönnum og samfélaginu öllu réttinn til að gera mistök,“ sagði Arnar í samtali við blaðamann eftir fundinn.

Hann bætti við að „rétturinn til að gera mistök“ ættu að vera borgaraleg réttindi eins og kosningarétturinn.

Í pallborðsumræðum hafði Arnar orð á því að Reykjavíkurborg ætti að vera óhrædd við að styðja við nýsköpun með fjárframlögum og jafnvel ætti hún að stofna fyrirtæki í kringum nýsköpun. Nefnir hann sér til stuðnings fyrirtækið Carbfix. Blaðamaður spurði þá hvort að hann teldi að nýsköpun yrði til án hins opinbera

„Nei. Ólíkt því sem oft er haldið fram þá tekur hið opinbera ekki frá einkageiranum heldur ryður nýjar brautir og býr til nýja geira. Besta dæmið um það er tæknibyltingin sem við upplifum í dag sem nærist og byggir á fjárfestingum sem hið opinbera gerði,“ segir Arnar.

Fjarvöktun í náinni framtíð

Auður Guðmundsdóttir, teymisstjóri velferðartæknismiðju Reykjavíkurborgar, ræddi um stafrænar lausnir í velferðarþjónustu og þá miklu þróun sem megi vænta þar. Nefndi hún sérstaklega fjarvöktun „Í fjarvöktun þá er verið fylgjast með einkennum og framþróun á langvinnum sjúkdómum.“

Hún segir að með breyttri aldurssamsetningu í framtíðinni komi fram áskoranir eins og fleiri langveikir sjúklingar. Sökum þess fjölda verður erfitt að viðhalda hefðbundnari læknisþjónustu í persónu og tryggja gæði þjónustunnar.

„Þá lítum við til fjarvöktunarkerfa þar sem sjúklingur getur búið áfram heima hjá sér. Hann getur mælt sig sjálfur og svarað spurningalistum um líðan og einkenni. Svo myndi kerfið taka eftir þeim sem þurfa á frekari meðferð að halda, en merkir hina græna sem þurfa bara grunnþjónustu. Svona getum við einbeitt okkur að þeim sem eru verr staddir og þjónustað þá.“

Segir hún að með fjarvöktun þá geti einn heilbrigðisstarfsmaður vaktað 100 einstaklinga í einu, en í dag séu það í mesta lagi 10 manns á dag.

Blaðamaður spurði hana hvenær borgarbúar mættu gera ráð fyrir því að þetta væri tekið í gagnið. „Við erum að fara af stað í prófunarverkefni fyrir haust. Þar verður byrjað á fólki með hjartabilun. En á næstu fimm árum má gera ráð fyrir því að fjarvöktun muni aukast.“

Eins og verslunarmiðstöð

„Mínar síður er eins og Kringlan. Þetta er bara skel sem sameinar allar búðirnar og í búðunum gerast töfrarnir, í þjónustunni gerast töfrarnir,“ segir Sigurður Fjalar, vörustjóri fyrir mínar síður hjá Reykjavíkurborg.

Hann er bjartsýnn á þróun miðlægrar upplýsingagáttar í gegnum mínar síður. Hann segir að innan fárra ára geti borgarbúar sótt allt sem snerti við þeim er varðar þjónustu borgarinnar eins og til dæmis upplýsingar um þjónustu sem borgarbúar eigi rétt á.

Kristinn Jón Ólafsson, formaður stafræns ráðs Reykjavíkurborgar, segir að það sé mikilvægt að finna jafnvægi á milli hlutverks Reykjavíkurborgar og einkaaðila við framleiðslu og hönnun á stafrænum lausnum.

„Þetta er samblanda. Það er engin ein leið sem er fær í þessum hraða heimi til að mæta þeim áskorunum sem eru fyrir hendi. Tölfræðin yfir útvistun á verkefnum til einkaaðila er tengjast þjónustu,- nýsköpunar- og þróunarverkefnum er 60-70%.“ Hann segir mikilvægt að byggja upp þekkingu innan Reykjavíkurborgar.

Aðsókn í þjónustuver Reykjavíkurborgar hefur dregist saman um í kringum 50% í ár samanborið við síðasta ár. Búi Bjartmarsson, stafrænn leiðtogi þjónustu- og nýsköpunarsviðs, telur ástæðuna fyrir því vera vegna breytinga á afgreiðslu og þjónustu fyrir byggingarfulltrúa, en hún er að miklu leyti orðin stafræn.

mbl.is