Ég sef alveg fyrir þessu

Freyr Jóhannesson seðlasafnari með meiru.
Freyr Jóhannesson seðlasafnari með meiru. mbl.is/Arnþór

„Efnahagssaga Íslands býr þarna að baki en hún hefur, eins og við þekkjum, verið svolítið skrykkjótt. Svo eru þetta auðvitað í mörgum tilfellum mjög listrænir hlutir og mikið í þá lagt.“

Þetta segir ​Freyr Jóhannesson sem sýnir rjómann af veglegu seðlasafni sínu á norrænu söfnunarsýningunni NORDIA 2023 í Ásgarði í Garðabæ dagana 2. til 4. júní. Safnið hefur byggst upp á 63 árum en á sýningunni verða hlutabréf, einkagjaldmiðlar og fleira.

Freyr segir áhuga sinn á peningaseðlum fyrst og fremst sögulegan; þeir segi heilmikla sögu um þróun viðskipta landsins, bæði hjá opinberum aðilum og einkaaðilum.

Frey er söfnun í blóð borin og hann hóf að safna frímerkjum sex ára að aldri. Þegar hann fór til náms í Kaupmannahöfn upp úr 1960 fór seðlasöfnunin á flug. „Það var sægur af myntkaupmönnum í Kaupmannahöfn og ég gekk á milli þeirra og keypti seðla og mynt. Þarna kom ég mér upp góðu tengslaneti sem átti eftir að gagnast mér síðar,“ segir Freyr.

„Ég hef keypt mikið frá Danmörku gegnum tíðina, kannski mest. Það munaði ekki minnst um góðan kunningja minn, Jerry Mayer, sem hjálpaði mér mikið að útvega seðla. Sjálfur var hann mikill safnari og kom oft hingað til lands á um tuttugu ára tímabili. Uppboð í Kaupmannahöfn og raunar víðar hafa líka verið drjúg. Þannig hef ég náð í mjög góða hluti.“

Sama dag og Íslandsbanki tók til starfa, 7. júní 1904, …
Sama dag og Íslandsbanki tók til starfa, 7. júní 1904, setti hann fjórar tegundir seðla í umferð. mbl.is/Arnþór


Þegar Myntsafnarafélag Íslands var stofnað árið 1969 gekk Freyr strax í félagið sem er vettvangur þeirra sem safna og vilja fræðast um íslenska og erlenda gjaldmiðla, minnispeninga og aðra sambærilega, sögulega hluti. Árið 1977 hætti Freyr að safna frímerkjum og sneri sér alfarið að seðlum. „Ég segi alltaf að betra sé að safna seðlum en frímerkjum, sérstaklega þegar maður eldist. Maður sér seðlana betur.“

Seinlegt að safna seðlum

Hvernig gekk að stækka safnið?

„Það er seinlegt að safna seðlum,“ svarar Freyr kíminn. „Ég bætti við safnið þegar peningar voru til og eftir því sem maður eldist aukast möguleikarnir, þangað til þeir minnka aftur. Safnið var orðið mjög gott um aldamótin og lítið hefur bæst við síðan.“

Ert þú, eins og margir safnarar, alveg friðlaus meðan þú bíður eftir einhverju merkilegu sem vantar í safnið?

„Ég hef kynnst nokkrum slíkum stemningsmönnum gegnum tíðina en sjálfur sef ég alveg fyrir þessu,“ svarar Freyr brosandi. „En maður þarf að vera vakandi og fylginn sér.“

Hvaða seðlum beiðstu lengst eftir?

„Það er erfitt að segja. Ætli það hafi ekki verið Landssjóðsseðlarnir frá 1886. Þeir eru erfiðir, sérstaklega 50 krónu seðillinn. Ég náði honum á uppboði í Osló 1992. Keypti hann raunar með öðrum safnara en við höfum hjálpast mikið að gegnum tíðina. Ég nefni líka vöruseðla sem einkaaðilar gáfu út. Þeir eru mjög sjaldgæfir og flestir líklega bara til í minni eigu og Seðlabankans.“

Nánar er rætt við Frey í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: