Ekki ástæða til að afnema húsnæðisliðinn

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra.
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, segir ekki ástæðu til að afnema húsnæðisliðinn. 

Í samtali við mbl.is segir hann það í grófum dráttum hafa verið megin niðurstöðu vinnu sem lagt hafi verið í.

„Ekki hægt að velja sér bara einhverja vísitölu“

Ráherra segir augljóst að ekki sé hægt að hafa væntingar um að fólk geti skipt út vísitölu án þess að það hafi áhrif á vaxtaprósentu.

„Það er ekki hægt að velja sér bara einhverja vísitölu og vilja halda sömu vöxtunum og áður var samið um á grundvelli annarrar vísitölu. Þetta er meðal þess sem fram kom í vinnunni sem við lögðum í á sínum tíma,“ segir Bjarni.

Til bóta að lagfæra verklag

Hins vegar segir Bjarni að sú aðferð sem viðhöfð sé í dag við að leggja mat á húsnæðisliðinn sé ekki gallalaus. Samtal hafi átt sér stað við Hagstofuna um þá gagnavinnslu sem liggur til grundvallar reiknaðri húsaleigu, einum af undirliðum vísitölunnar.

„Okkur sýnist að það sé hægt að gera lagfæringar á því verklagi sem er viðhaft við að safna gögnum til að leggja mat á þennan lið. Það væri mjög til bóta að gera það. Þá erum við fyrst og fremst að tala um það að vera með raunsannari tölur en ekki áætlaðar um það hvernig húsaleiga er að breytast á milli tímabila.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert