Skotfélag Húsavíkur strýkur rússneska sendiráðinu andhæris

Pútín glottir við tönn sem skotskífa Skotfélags Húsavíkur sem auglýsir …
Pútín glottir við tönn sem skotskífa Skotfélags Húsavíkur sem auglýsir 400 metra riffilmót sitt. Þetta gremst rússneska sendiráðinu í Reykjavík gróflega. Skjáskot/Facebook-síða Skotfélags Húsavíkur

„Við lítum á þetta athæfi sem móðgun við höfuð rússneska ríkisins, siðlaust athæfi sem stangast á við bæði siðferðisleg viðmið og íþrótta- og ólympískar meginreglur,“ ritar sendiráð Rússlands í Reykjavík á Facebook-síðu sína í dag.

Greinir sendiráðið þar frá umkvörtunarefni sínu, þeirri háttsemi Skotfélags Húsavíkur að útbúa skotskífur með andliti Vladimírs Pútíns Rússlandsforseta og birta sem auglýsingu á síðu sinni. Segir þar nánar um í færslu sendiráðsins í þýðingu Facebook:

„Vöktum athygli á því sem sett var inn 30. maí p. g. á samfélagsmiðlinum "Facebook" auglýsingum Skotíþróttafélags borgarinnar. Húsavík, meðlimur í Ólympíusambandi Íslands, með ljósmynd af forseta Rússlands V. V. Pútín er á skotmarki. Við lítum á þetta athæfi sem móðgun við höfuð rússneska ríkisins, siðlaust athæfi sem stangast á við bæði siðferðisleg viðmið og íþrótta- og ólympískar meginreglur og krefjast þess að tafarlausa fjarlægingu hinnar óásættanlegu ímyndar.“

Segir í framhaldinu í skrifum sendiráðsins að það áskilji sér rétt til að krefja íslensk yfirvöld um að skýra afstöðu sína varðandi þennan gjörning „sem er opinskátt rússófóbískur“.

Kvörtun sendiráðsins.
Kvörtun sendiráðsins. Skjáskot/Facebook-síða rússneska sendiráðsins
mbl.is